Tveir af fámennustu hreppum landsins ræða nú um sameiningu. Samanlagður íbúafjöldi þeirra nær ekki 200.
Sveitarstjórnir í sveitarfélögunum Árneshreppi og Kaldrananeshreppi hafa ákveðið að hefja óformlegar sameiningarviðræður. Vestfjarðamiðillinn BB greinir frá þessu.
Um er að ræða tvö af fámennustu sveitarfélögum landsins. Í Árneshreppi búa 62 og í Kaldrananeshreppi 118. Sameiginlegur íbúafjöldi er því aðeins 180 manns. Lítil þorp eru í Djúpavík og á Drangsnesi.
Sveitarfélögin hafa sótt um styrk til Jöfnunarsjóðs vegna sameiningarviðræðnanna.