Hart var tekist á um aðgengi fatlaðra á bæjarstjórnarfundi Kópavogs á þriðjudag og þung orð látin falla. Minnihlutinn telur sig ekki hafa fengið svör við fyrirspurnum sínum.
Á fundinum var rætt um hinar miklu framkvæmdir á Fannborgarreitnum í miðbær Kópavogs sem ítrekað hefur verið fjallað um í fréttum. Fulltrúar minnihlutans, það er Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vina Kópavogs, hafa krafist svara um aðgengi fatlaðra sem hefur mikið verið til umræðu. Einnig hvort að það sé ekki skýr samstaða um að byggingarleyfi verði ekki veitt nema fullnægjandi lausnir séu til staðar. En samkvæmt reglugerð eiga stæði fatlaðra ekki að vera fjær en 25 metra frá aðalinngangi.
Nú hafi hins vegar borist svör frá umhverfissviði um að aðgengisáætlun taki breytingum á milli framkvæmdafasa.
„Engar vegalengdir eru málsettar og engin leið er að gera sér grein fyrir fjarlægð frá bílastæðum að aðalinngangi bygginga,“ segja fulltrúar minnihlutans, ósáttir við svarið. Krefjast þeir þess að reglum um aðgengi sé fylgt og að skýr svör berist.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri, og aðrir fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, brugðust illa við þessu og sögðu minnihlutann veitast að starfsmönnum bæjarins.
„Það er óásættanlegt og bæjarfulltrúum minnihlutans til minnkunar að væna starfsmenn bæjarins um útúrsnúning þegar þeir eru að sinna störfum sínum af ábyrgð og fagmennsku,“ segir í bókun meirihlutans.
Segir meirihlutinn að skýrt sé tekið fram að aðgengi og fjarlægðir frá bílastæðum fyrir hreyfihamlaða verði sambærilegar og nú er og að farið verði eftir gildandi lögum og byggingarreglugerð.
Var þessu svarað jafn hart til baka og sagt að svar umhverfissviðs hefði ekki falið í sér upplýsingar sem um hafi verið beðið.
„Sorglegur skortur á skilningi á réttindum og skyldum bæjarfulltrúa og ráðinna starfsmanna kemur fram í bókun meirihlutans um að það sé óásættanlegt og bæjarfulltrúum minnihlutans til minnkunar að væna starfsmenn bæjarins um útúrsnúning í svarinu sem lagt var fyrir. Það er bæjarstjóra til minnkunar að undirrita bókunina og þar með fullyrðingu um að svar umhverfissviðsins hafi verið unnið af ábyrgð og fagmennsku,“ segir í bókun minnihlutans.
Það sé á ábyrgð bæjarstjóra að sjá til þess að mál stjórnsýslunnar sem lögð séu fyrir bæjarráð séu vel undirbúin og upplýsandi.
Ásdís og meirihlutinn héldu þá áfram og sögðu ásakanir minnihlutans ómaklegan og vísvitandi útúrsnúning.
„Bæjarfulltrúar bera sameiginlega ábyrgð á málefnalegri umræðu og virðingu í samskiptum, bæði sín á milli og við starfsmenn bæjarins og það er ekki umræðunni til framdráttar að draga í efa heiðarleika eða fagmennsku þeirra sem sinna störfum fyrir bæinn. Bæjarfulltrúar hafa fullan rétt á því að finnast svör starfsmanna ófullnægjandi og þá er hægt að óska eftir frekari upplýsingum. Ásakanir minnihlutans á hendur starfsmönnum um vísvitandi útúrsnúning eru ómaklegar og óásættanlegar að mati meirihlutans,“ segir í bókuninni á þessum mikla hitafundi.