Felur áætlunin í sér að ísraelski herinn mun nú undirbúa fyrir að taka yfir „stjórn í Gaza-borg á sama tíma og hann mun dreifa mannúðaraðstoð til almennra borgara utan átakasvæða,” eins og sagði í yfirlýsingu yfirvalda í Ísrael.
Nú þegar tæp tvö ár eru liðin frá því að hörmungarnar á Gaza hófust er Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, undir vaxandi þrýstingi, bæði heima og erlendis, um að semja um vopnahlé til að koma í veg fyrir frekari hörmungar á svæðinu þar sem hundruð þúsund íbúa eru á barmi hungursneyðar.
Netanjahú segir að ákvörðunin verði aðeins tímabundin, eða þar til búið verður að tryggja nýja valdhafa á svæðinu sem tengjast hvorki Hamas né stjórnvöldum á Vesturbakkanum.
Ákvörðun Ísraelsmanna í nótt hefur verið gagnrýnd harðlega víða.
„Þetta setur son minn og aðra gísla sem enn eru á lífi í hættu. Þetta mun lengja þjáningar þeirra,“ sagði til dæmis Yehuda Cohen, faðir gísls sem er í haldi Hamas-samtakanna, í samtali við Newsday-þátt BBC World Service í morgun. Sonur hans, Nimrod, var aðeins 19 ára þegar hann var tekinn til fanga í árás Hamas í Ísrael þann 7. október 2023.
Cohen segir að svo virðist sem Netanjahú kjósi frekar að fórna þeim gíslum sem enn eru í haldi því það muni auðvelda honum lífið. „Þegar þú sannfærir alla um að þeir látnir geturðu réttlætt beitingu á grófu valdi á Gaza-svæðinu,“ segir hann.
Í frétt BBC kemur fram að andstaðan virðist einnig vera mikil meðal almennings í Ísrael. Tal Schneider, stjórnmálafréttaritari Times of Israel, segir að fólk hafi farið út á götur á tugum staða í gærkvöldi til að mótmæla ákvörðun yfirvalda.
„Ríkisstjórnin er að grípa til aðgerða sem eru mjög, mjög óvinsælar,“ segir Schneider í samtali við Today-þátt BBC Radio 4. „Allar skoðanakannanir benda til þess að almenningur sé mjög á móti þessu skrefi,“ segir hún og bætir við að ríkisstjórnin virðist föst í því hugarfari að harðari aðgerðir séu nauðsynlegar í stað þess að leita diplómatískra lausna.
Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, hefur einnig tjáð sig um málið og segir hann að ákvörðun öryggisráðs Ísraels sé röng og hvetur hann hana til að endurskoða hana tafarlaust.
„Þessi aðgerð mun ekkert gera til að binda endi á átökin eða hjálpa til við að tryggja lausn gíslanna. Hún mun einungis leiða til frekari blóðsúthellinga,“ segir hann.