Slagsmál brutust út á ströndinni við borgina Odessa í Úkraínu. Upphaflega á milli tveggja kvenna vegna þess að spilað var rússneskt lag en síðar bættust fleiri við í slagsmálin.
Breska blaðið The Daily Mail greinir frá þessu.
Myndband var birt á samfélagsmiðlum af slagsmálum sem brutust nýlega út á baðströnd við borgina Odessu við Svartahaf.
Svo virðist sem það hafi raskað ró fólks að spilað hafi verið rússneskt lag og endaði það með handalögmálum. Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar árið 2022 hefur rússnesk tónlist verið bönnuð í landinu. Rússar ásælast mjög hafnarborgina Odessu sem hefur legið undir sífelldum loftárásum og drónaárásum á undanförnum árum.
Í byrjun myndbandsins má sjá tvær bíkíníklæddar konur slást, togandi í hárið á hvorri annarri og kýlandi frá sér. Fljótlega bætist fleira fólk við við slagsmálin, bæði konur og karlar, og einhverjir kropparnir enda kylliflatir í sandinum.
Sést að tveir menn reyna að stöðva bardagann með því að toga konurnar tvær í sundur. En einnig sést að tveir aðrir menn lenda í slagsmálum annars staðar en á aðal slagsmálasvæðinu.
Aðrir baðstrandargestir standa og fylgjast með ósköpunum og enn aðrir ganga fram hjá eins og ekkert sé sjálfsagðara að fáklæddur hópur sé í fangbrögðum skammt frá þeim.
Málið hefur ekki aðeins ratað á samfélagsmiðla heldur hafa úkraínskir fjölmiðlar fjallað um það. Meðal annars blaðið Strana sem fullyrðir að slagsmálin hafi byrjað út af því að verið var að spila rússneska tónlist.
„Ferðamenn slógust á ströndinni í Odessa eftir að lag á rússneskri tungu var spilað,“ segir í frétt blaðsins.