Zeljka Kristín Klobucar er frá Serbíu og kom hingað til lands sem kvótaflóttamaður árið 1996 vegna styrjaldarinnar á Balkanskaga. Hún er afar þakklát Íslendingum fyrir hvernig tekið var á móti henni hér og hvernig samfélag hér er. Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísi. Þar segir Zeljka:
„Ísland er land sem hefur aldrei þvingað mig til neins, íslenska þjóðin hefur aldrei sýnt mér fordóma af neinu tagi. Ég hef aldrei fundið að ég þarf að breyta mér, aldrei þurft að pæla í því hvort ég er Serbi, Króati eða eitthvað annað. Að fá að koma hingað, skilja allt þetta gamla eftir og byrja upp á nýtt, er ómetanlegt. Það sem ég hef upplifað hér er svo mikla manngæsku, sérstaklega fyrstu árin okkar á Ísafirði, frelsi, að fá að lifa áhyggjulausu lífi, ótal tækifæri sem ég veit ekki hvort hefðu staðið mér til boða í upprunalandi mínu og fyrir það er ég óendanlega þakklát.“
Zeljka segir að alið sé á neikvæðni meðal flóttamanna í garð samfélagsins hér og þakklátir flóttamen þori ekki að tjá þakklæti sitt. Ef flóttamaður vogi sér að segja frá jákvæðri upplifun af samfélaginu og taki ekki undir neikvæða gagnrýni á eitt og annað þá geti hann verið álitinn haldinn innrættum fordómum gegn eigin hópi, eða að hann hafi afsalað sér sjálfsmynd sinni til að þóknast Íslendingum.
Hún segir ásakanir um fordóma ganga svo langt að þegar útlendingum sé hrósað fyrir góða íslenskukunnáttu sé það flokkað undir fordóma, sem og það að spyrja fólk hvaðan það kemur:
„Undanfarin ár hef ég verið vör við það að það er verið að finna fordóma í mörgu sem Íslendingar gera, segja eða spyrja eins og t.d. “hvaðan ertu”? Nú er það talið sem kerfisbundin aðgreining, fordómar eða vísbending um að viðkomandi sé ekki sjálfgefið hluti af samfélaginu sem hann lifir í. Ég hef farið á menningarfræðslu hér á landi og þar kom fram m.a. að Íslendingar eru með fordóma ef þau segja við útlending sem hefur verið lengi í þessu landi að maður tali góða íslensku. Það virðist vera auðveldara að móðgast en að taka þessu sem hrós. Fólk hér vill bara vera vinaleg og brjóta ísinn með því að hrósa fólki fyrir það að leggja á sig að læra tungumálið eða spyrja hvaðan maður kemur. Mín upplifun er að Íslendingar þora varla lengur að segja eitthvað við mann vegna hræðslu um að móðga ‚útlendinginn‘ þar sem fjölmiðlar, stofnanir, útlendinga sérfræðingar og aðrir eru að halda því fram að það eru dulin fordómar.Margir meira að segja fara það langt og móðgast fyrir manns hönd, þótt maður sjálfur móðgast ekki né tekur því sem fordóma.“
„Mér sárnar svo mikið þegar ég heyri flóttamenn sem fá ný tækifæri hér, að gagnrýna landið og þjóð, heimta eitt og annað. Mörg okkar koma frá löndum þar sem mannréttindi eru sama sem núll, spilling í hámarki, tjáningarfrelsi í lágmarki, stanslaus kvennakúgun, tækifæri af skornum skammti (aðeins nokkur dæmi nefnd). Hvernig er þá hægt með góðri samvisku að gagnrýna þetta land eða kröfurnar sem landið setur fram og vill að við sem fáum að koma hingað fylgjum eftir til þess að aðlagast?“ segir Zeljka í grein sinni sem lesa má hér.