Bygging Kárahnjúkavirkjunar, árin 2003 til 2007, hefur verið kölluð stærsta framkvæmd Íslandssögunnar en hún gekk ekki snurðulaust fyrir sig. Íslendingur sem vann á staðnum segir að ítalski verktakinn Impregilo sem sá um verkið hafi komið illa fram við starfsfólk til að spara peninga og sífelld slys hafi orðið. Einn lykilmaður hjá Impregilo hafi verið drukkinn alla daga.
Um tveir áratugir eru síðan virkjunin að Kárahnjúkum var byggð, sem var ekki aðeins ein stærsta framkvæmd Íslandssögunnar heldur einnig ein umdeildasta. Mest fór fyrir mótmælum í aðdraganda byggingarinnar hvað varðar umhverfisáhrifin af stíflunni en þegar framkvæmdin hófst bárust einnig fréttir af slæmum aðbúnaði og slysum.
Í umræðum á samfélagsmiðlinum Reddit hefur verið fjallað um þennan tíma og lýsa sumir þessu eins og „hryllingsmynd.“ Bæði hvað varði aðbúnað og öryggi. En hafa ber í huga að tiltölulega fáir Íslendingar unnu á staðnum. Flest starfsfólkið hafi verið innflutt og unnið hér tímabundið. Margar sögurnar séu því líklega löngu farnar úr landi.
Einn Íslendingur greinir frá því að hann hafi unnið á svæðinu við upphaf framkvæmda. Aðalvinnan hafi verið undirbúningur hjá Impregilo og íslenska fyrirtækið Arnarfell var að gera göng til að veita ánni fram hjá stíflusvæðinu.
Segist hann aðeins hafa enst þarna í sex mánuði og hann hafi reynt að hugsa sem minnst um þennan tíma síðan þá. Meðal annars hafi ýmislegt verið í ólagi varðandi ítölsku yfirmennina.
„Ítölsku yfirmennirnir hjá Impregilo, mikið miðaldra verkfræðingar sem áttu að stýra þessu öllu saman áttu mjög erfitt með að venjast því að keyra á íslenskum fjallvegum og lentu í ítrekuðum bílveltum og öðrum slysum, það mörgum að þeim voru skaffaðir einkabílstjórar, allavega til að byrja með,“ segir hann. „Einn af ítölunum, maður sem átti að vera lykilmaður í að leiðbeina Arnarfellsgenginu í hjáveitugöngunum var skapofsahundur og dagdrykkjumaður, það mikill að ef að hann var eitthvað reiður út af einhverju þá var mælt með því að reyna að forðast hann þangað til að líða tók á vaktinna, þá var hann orðinn það mildur af rauðvíninu að honum var yfirleitt runnin reiðin og orðinn besti vinur þinn.“
Mikið var um slys við byggingu virkjunarinnar. Alls voru tilkynnt 1.700 vinnuslys, 86 prósent þeirra hjá Impregilo og flestir yngri en fertugt. Á annað hundrað urðu óvinnufær, tíu urðu fyrir óbætanlegu líkamlegu tjóni og fjórir létust. Á meðal slysa má nefna að 122 beinbrotnuðu, 49 urðu fyrir eitrun og 35 fyrir bruna.
Íslendingurinn sem áður var nefndur segir að stundum hafi ekki mátt miklu muna að illa færi.
„Eftir hverja sprenginu í göngunum voru ítalskir mælingamenn sem mættu til að spreyja næsta sett af merkingum fyrir gangnaborinn, og passa að göngin færu nú þá leið sem þau áttu að fara. Þetta var orðin ansi staðlað ferli, þeir fóru um borð í körfu á skotbómulyftara, byrjuðu vinstra megin og unnu sig svo í hálfhring upp og til hægri. Þetta var alltaf unnið eins og menn orðnir þaulvanir. Á þessari vakt tók Íslendingurinn á skotbómulyftaranum eftir því að mælingarmennirnir voru í svaka fínum skóm, eiginlega allt of fínum fyrir göngin, og það var stærðarinnar drullupollur þar sem þeir klöngruðust yfirleitt um borð. Þeir ákváðu því að, aldrei þessu vant vinna þetta frá hægri til vinstri og enda þar sem þeir yfirleitt byrjuðu. Þá þyrftu þeir ekki að blotna í fæturna,“ segir hann. „Svo þegar þeir voru rúmlega hálfnaðir með verkið hrundi risa grjót úr loftinu…akkúrat þar sem þeir hefðu verið ef þeir hefðu unnið verkið eins og þeir gerðu það nánast alltaf. Þetta grjót hefði víst klárlega drepið þá báða í körfunni ef ekki hefði verið fyrir drullupollinn, eða ef þeir hefðu skóað sig almennilega fyrir vaktina.“
Svo var það aðbúnaðurinn. Snemma kom fram að ekki væri allt samkvæmt reglum varðandi aðbúnað og kjör starfsfólks, sem kom meðal annars margt frá Portúgal og Kína.
„Hver einn og einasti íslenski húsasmiður sem ég rakst á þarna upp frá höfðu varað Ítalina við frá fyrsta degi að vinnubúðirnar sem þeir voru að reisa fyrir sitt fólk myndu fyllast af raka og vera ómögulegt að halda eðlilegum húshita á þegar veturinn skylli á. Það var ekki hlustað á þá,“ segir Íslendingurinn. „Ég varð vitni af því persónulega þegar þetta var útskýrt í smáatriðum fyrir mönnum sem hefðu átt að hafa ákvarðanavald til að taka í taumana löngu áður en allt fór á versta veg, og það var ömurlegt að svo 1-2 árum síðar að lesa fjölmiðlaumfjöllunina um slæman aðbúnað erlendra verkamanna þarna. Impregilo vissi nákvæmlega hvað þeir voru að gera – spara peninga.“