Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi Vinstri Grænna, segir tíma til kominn að breyta spurningakeppni framhaldsskólanna. Keppnin, sem jafnan fer fram á RÚV, fyrst í útvarpi og síðast í sjónvarpi þegar komið er í átta liða úrslit verður fertug á næsta ári.
„Það er rosalega hár aldur á sjónvarpssþætti og í raun er keppnin orðin svo gömul að það hjálpar til við að viðhalda henni þótt það kunni að hljóma öfugsnúið. Enginn dagskrárstjóri er að fara að slá af Stundina okkar. Ég elska Gettu bettur. Ég var liðsstjóri í MR-liði sem lagði grunn að mesta skrímsli í sögu þessarar keppni. Á síðasta ári í menntó keppti ég og vann. Nokkur ár þar á eftir hjálpaði ég til við að þjálfa MR-lið þar til að ég færði mig hinu megin við borðið og gerðist spurningahöfundur og dómari – þegar MR-veldið lét loksins undan síga. Þar á eftir varð ég ráðgjafi og náði að þvinga í gegn þá reglubreytingu að keppendur skyldu vera af sitt hvoru kyninu. Það kallaði á samningaviðræður sem jafnast á við að ná að sameina Kóreuríkin.“
Stefán var eins og að framan segir í sigurliði Menntaskólans í Reykjavík árið 1995, árin 2004 og 2005 var hann dómari keppninnar. Fram eftir þrítugsaldri kom hann að þjálfun bæði Gettu betur- og Morfís-liða ýmissa framhaldsskóla. Hann hefur starfað sem spurningahöfundur og dómari í meðal annars Gettu betur, Útsvariog Spurningakeppni fjölmiðlanna. Það er því óhætt að fullyrða að Stefán veit hvað hann syngur þegar kemur að Gettu betur.
Stefán segist oft heyra það sjónarmið að keppnin sé orðin stöðnuð og úrelt og það þurfi að breyta henni í grundvallaratriðum. Hann segist ekki endilega sammála þeirri skoðun.
„Málið er að framhaldsskólanemar eru að mörgu leyti íhaldssamir… eða öllu heldur: þeir vilja halda í hefðir og upplifa sömu ritjúöl og þau sem á undan fóru.
Það er fráleitt að segja við busann í MR að tollering á busavígslu sé úrelt og ófrumleg. Hann veit að í marga áratugi hafa busar verið teknir inn í skólann með því að vera kastað upp í loftið í 3-4 skipti og vill fá að upplifa sinn skammt. Gettu betur er furðulega steingervð stofnun en jafnframt eitthvað sem krakkarnir tengja við að hafi gerst frá því að völvan var ung og sæt. Og þau vilja taka þátt. Þeim finnst ekkert meira töff en að ryðja út úr sér hraðaspurningum, sem enginn yfir fertugu fær með góðu móti skilið. Þannig er það bara.“
Stefán segir vandann liggja í því að keppnin sé í dag óralangt frá því að vera fjölskylduskemmtiþátturinn sem RÚV lætur eins og hann sé.
„Gettu betur á ekki að vera í beinni útsendingu á föstudagskvöldi. Hann á að vera á þriðjudags- eða miðvikudagskvöldi og kynntur til sögunnar sem nákvæmlega það sem hann er: sjónvarpsþáttur þar sem framhaldsskólanemar fá smá sviðsljós í Ríkissjónvarpinu, hópur sem er að öðru leyti fullkomlega vanræktur ef söngkeppnin er undanskilin.“
Stefán vill einnig að keppnin verði ekki sýnd í beinni útsending nema mögulega, hugsanlega úrslitakeppnin. Almennt séð telur hann að spurningaþættir eigi ekki að vera í beinni útsendingu.
„Þeir eiga að vera efni sem er pródúserað og svo klippt í drasl. Allir skemmtilegu bresku spurningaþættirnir sem þið hafið horft á á netinu eru klipptir fram og til baka. 40 mínútna þáttur er 90 mínútur í tökum, því það á eftir að klippa til efnið og henda því sem ekki virkar. Og það eru þættir sem eru teknir upp með reyndum skemmtikröftum ekki 17-18 ára stressuðum krökkum sem hafa aldrei áður verið í sjónvarpi.
Sama gildir um útvarpskeppnirnar. Þær verða að hætta að vera í beinni útsendingu. Það er engum til gleði. Það á að taka þær upp, helst í nóvember, klippa þær í spað og krydda með skemmtilegu efni tengt viðkomandi skólum. Matti á Rás 2 á að taka viðtal við skólahljómsveitina í Laugaskóla sem er að fara að keppa við Flensborg og spila lag með þeim. Og þetta verður allt spilað milli nýárs og jóla, líkt og Bylgjan gerir með fjölmiðlakeppnina um páskana.
Væri ekki dálítið skemmtilegt ef okkur tækist að bjarga Gettu betur frá yfirvofandi miðaldrakrísu með þessum hætti?“