Íslendings að nafni Ólafur Austmann Þorbjörnsson er nú leitað af lögreglu í Búlgaríu. Málið er komið inn á borð lögreglunnar hér á landi sem hefur lýst eftir honum í alþjóðlegum kerfum lögreglu.
Aðstandendur Ólafs hafa lýst eftir honum á samfélagsmiðlum og segja að ekkert sé vitað um ferðir Ólafs síðan 18. ágúst síðastliðinn. Hann hafi síðast sést á bensínstöð í höfuðborginni Sofia. Ólafur er um 184 sentimetrar á hæð, með dökkt hár og grannvaxinn. Hann var í gallabuxum og svartri skyrtu þegar hann sást síðast. Aðstandendur segja Ólaf hafa glímt við veikindi og fengið krampaköst. Hann hafi verið skólaus, símalaus og skilríkjalaus þegar síðast sást til hans og aðstandendur Ólafs eru því afar áhyggjufullir.
Aðstandendur óska eftir upplýsingum og aðstoð frá þeim sem kunna að þekkja til í Búlgaríu. Viðkomandi eru beðnir um að hafa samband við annaðhvort aðstandendur eða lögregluna í Búlgaríu eða lögregluna á Suðurlandi sem er með mál Ólafs til rannsóknar.