Mannréttindasdómstóll Evrópu dæmdi í morgun íslenska ríkið brotlegt gegn Maríu Sjöfn Árnadóttur. RÚV greinir frá.
María kærði ofbeldi sambýlismanns gegn sér en málið fyrntist á meðan rannsókn lögreglu stóð. Komst Mannréttindasdómstóllinn að þeirri niðurstöðu að lögregla hefði getað komið í fyrir að málið fyrntist en hafi ekki gert það. Hún kærði brot mannsins gegn sér 17 og 22 mánuðum eftir að þau voru framin. Lögregla yfirheyrði hana ekki fyrr en fyrningartími vegna annarrar kærunnar var liðinn og lögregla yfirheyrði sambýlismanninn ekki fyrr en bæði mál voru fyrnd.
Í frétt RÚV segir ennfremur:
„Fram kemur í dóminum að saksóknari hafi lagt áherslu á það við lögreglu að rannsókn hæfist sem fyrst en ekki hafi verið orðið við því. Dómstóllinn segir málið hafa tafist meðan reynt var að ákveða hvaða umdæmi skyldi rannsaka það, þrátt fyrir að konan hefði rekið á eftir rannsókn. Einnig munu sumarfrí hafa haft áhrif á rannsóknina.“
Sem fyrr segir fyrndust tvö meint brot mannsins gegn Maríu en haustið 2021 sakfelldi Landsréttur hann fyrir hótanir í garð hennar. Hótaði hann að senda nektarmyndir af hanni til vinnuveitanda hennar. Sjá nánar hér. Var hann dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi og til að greiða henni 300 þúsund krónur í miskabætur.
Í dómi Landsréttar var litið til þess að brot mannsins beindust gegn fyrrverandi sambýliskonu hans. Við mat á upphæð miskabóta var horft til þess að brotin fólu í sér brot gegn friði og persónu hennar og gátu verið til þess fallin að vekja hjá henni ótta um velferð sína.