Sveitarfélagið Borgarbyggð vill selja fasteignir Háskólans á Bifröst og byggja þar upp verðmætaskapandi starfsemi. Koma verði þeim óvirka fjölda flóttafólks sem þar býr í virkni og losa sveitarfélagið undan fjárhagslegum vítahring.
Þetta kemur fram í fundargerð byggðarráðs á fimmtudag. En þá var farið yfir stöðu málsins og sjónarmið Borgarbyggðar tíundaðar.
„Sveitarfélagið hefur lagt kapp á það í sumar að kynna þá áskorun sem blasir við á Bifröst fyrir ráðherrum, sérfræðingum ráðuneyta, þingmönnum, Vinnumálastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fjölmiðlum og fjölmörgum fleiri aðilum,“ segir í fundargerðinni.
Er þremur punktum haldið á lofti. Það er að framlengja þurfi heimild ríkissjóðs til að endurgreiða flóttamönnum fjárhagsaðstoð umfram tvö ár, að hefja markvissa vinnu við að finna þorpinu á Bifröst nýtt verðmætaskapandi hlutverk og að koma þeim óvirka fjölda sem þar býr í virkni en Bifröst sé fjarri atvinnumöguleikum og þjónustu.
„Uppbyggilegt samtal við stjórnendur Háskólans á Bifröst er í gangi og í samræmi við það bindur Borgarbyggð vonir við að hafa mun meiri aðkomu en hingað til að fyrirhugaðri sölu þorpsins á Bifröst,“ segir í fundargerðinni.
Á þriðja hundrað flóttamenn frá Úkraínu eru á Bifröst. Upphaflega átti úrræðið að vera til þriggja mánaða en hefur varað í meira en tvö ár. Til að byrja með greiddi ríkið kostnaðinn af veru fólksins en síðan sveitarfélagið.