Þýski kanslarinn Friedrich Merz hyggst afnema sjálfkrafa rétt hælisleitenda, sem hafa fengið synjun um hæli, til lögfræðiaðstoðar í kærumálum til að hraða brottvísunum. Aðgerðin er hluti af harðari stefnu stjórnvalda á innflytjendamálum.
Stuðningsmenn Merz telja að núverandi reglur, sem settar voru af fyrri ríkisstjórn, hafi verið notaðar til að tefja brottvísanir.
Tillögurnar hafa vakið mikla gagnrýni í Þýskalandi. Flóttamannasamtökin Pro Asyl segja breytingarnar vera ólýðræðislegar og brjóta mögulega gegn stjórnarskrá Þýskalands. Innanríkisráðuneytið hefur hins vegar varið áformin og segir þau miða að því að fjarlægja hindranir sem geri stjórnvöldum erfitt fyrir að stemma stigu við fjölgun ólöglegra innflytjenda.
Nýja frumvarpið er hluti af stærra umbótapakka í málefnum útlendinga sem ríkisstjórnin samþykkti í júní. Meðal annarra aðgerða eru takmarkanir á fjölskyldusameiningu. Stefna Merz er sögð miða að því að endurheimta fylgi kjósenda sem leitað hafa til þjóðernissinnaða flokksins Alternative für Deutschland (AfD), sem náði sögulegum árangri í síðustu þingkosningum í febrúar.
Ríkisstjórnin er einnig undir þrýstingi eftir að þrjár mannskæðar hryðjuverkaárásir voru framdar á síðasta ári af hælisleitendum sem höfðu fengið synjun en ekki verið brottvísað. Árásirnar áttu sér stað í borgunum Solingen, Aschaffenburg og München.
Tölur sýna að umsóknir um hæli hafa fækkað verulega í Þýskalandi á þessu ári. Frá janúar hafa borist 61.336 nýjar umsóknir – helmingi færri en á sama tíma í fyrra. Þýskaland hefur því misst stöðu sína sem helsta áfangaland hælisleitenda í Evrópusambandinu; nú taka Spánn og Frakkland við fleiri umsóknum.
Samtök þýskra sveitarfélaga segja álag á þjónustu hafa minnkað og neyðargistiskýli, sem voru meðal annars í formi tjalda, hafa verið lögð niður á sumum svæðum.
Áformin verða lögð fyrir þingið á næstu vikum.