Þegar Verrity lagði af stað í vinnuna skein sólin en síðdegis byrjaði að rigna og bjóst hún því fastlega við því að finna þvottinn blautan.
„Þegar ég keyrði heim sá ég að það var enginn þvottur á snúrunni og mér þótti það dálítið skrýtið,“ segir hún í samtali við 9 News.
Þegar hún kom í garðinn sá hún að búið var að koma öllum þvottinum í skjól. Var það ekki fyrr en hún kíkti á upptöku úr öryggismyndavél sem hún er með í garðinum að hún sá að póstburðarmaður, sem hafði komið með pakka til hennar fyrr þennan dag, var sökudólgurinn – eða kannski frekar hetjan.
Póstburðarmaðurinn heitir Gurpreet Singh og er hann af indversku bergi brotinn og hefur hann starfað fyrir ástralska póstinn í fjögur ár. Verrity og hann mættu saman í viðtal í vikunni þar sem þau ræddu málið, en óhætt er að segja að myndbandið af góðverki hans hafi vakið athygli.
Singh sagði í viðtalinu að hann hafi í raun ekki hugsað út í það að hann væri að gera mikið góðverk og markmiðið hafi sannarlega ekki verið að vekja einhverja athygli. Hann hafi einfaldlega viljað koma þvottinum í skjól fyrir rigningunni. „Þetta tók mig eina mínútu,“ segir hann.