Í atburðarás sem margir kalla nánast fordæmalausa í sögu Rússlands var rússneski samgönguráðherrann Roman Starovoit rekinn úr embætti af Vladimir Pútín forseta að morgni mánudags. Síðdegis sama dag fannst ráðherrann látinn með skotsár á höfði.
Við hlið líkams hans í útjaðri Moskvu fannst skammbyssa, en þarlend yfirvöld segja að líklegast hafi verið um sjálfsvíg að ræða. Enn er málið til rannsóknar, og litlar sem engar upplýsingar hafa komið frá Kreml í kjölfarið.
Í umfjöllun BBC um málið er vitnað í leiðara rússneska blaðsins Moskovsky Komsomolets. „Sjálfsvíg Roman Starovoit skömmu eftir að hann var rekinn af forsetanum er nánast einsdæmi í rússneskri stjórnmálasögu,“ fullyrti ritstjórn blaðsins og rifjaði upp að síðast hefði sambærilegur atburður átt sér stað árið 1991 þegar sovéski innanríkisráðherrann Boris Pugo svipti sig lífi eftir misheppnað valdarán kommúnista.
Dmitry Peskov, talsmaður Pútíns, viðurkenndi í símtali við fjölmiðla að fréttirnar hefðu valdið áfalli: „Sjálfsögðu er þetta átakanlegt. En við tjáum okkur ekki frekar fyrr en rannsókn er lokið.“
Þrátt fyrir þögn ríkismiðla, hafa blöð og sjálfstæðir fjölmiðlar í Rússlandi verið fullir vangaveltna um dauða Starovoits. Hann hafði áður verið ríkisstjóri Kursk-héraðs við landamæri Úkraínu þar sem hann stýrði umfangsmikilli varnarmannvirkjagerð sem voru studd með myndarlegum ríkisframlögum. Þau mannvirki reyndust síðar gagnslaus þegar úkraínski herinn braust yfir landamærin og náði yfirráðum á svæðum innan Kursk.
Eftirmaður hans sem ríkisstjóri, Alexei Smirnov, og fyrrverandi aðstoðarmaður, Alexei Dedov, hafa nú verið handteknir og ákærðir fyrir stórfelld svik og spillingu vegna varnarmannvirkjanna. Telja margir að Starovoit hafi átt von á ákæru og hugsanlega þungum fangelsisdómi.
„Ef maður í valdastöðu sér enga leið út úr kerfinu nema dauðann, þá segir það sitt um stöðuna í Rússlandi í dag,“ segir Nina Khrushcheva, prófessor í alþjóðamálum í New York og langafabarn Nikita Khrushchev. Hún líkir aðstæðum við hreinsanir Stalíns 1937, þegar ráðherrar tóku eigið líf í örvæntingu.
Þá þykir það sláandi hversu lítið hefur verið fjallað um það í ríkismiðlum í heimalandinu. Í kvöldfréttum Russia-1 var fjögurra mínútna innslag um að nýr ráðherra væri tekinn við embætti samgönguráðherra en ekkert minnst á örlög fráfarandi ráðherra. Það var ekki gert fyrr en í lok fréttatímans, fjörtíu mínútum síðar, þegar tilkynnt var um andlátið. Sú tilkynning tók 18 sekúndur.
Fyrir almenning virðist þetta því ekki merkilegur atburður – en innan valdaelítunnar örlar á ótta. „Áður fyrr gátu menn notað embætti til að klifra upp metorðastigann, safna auði og völdum. Nú virðist sú leið enda í gröfinni,“ segir Khrushcheva.