69 prósent eru hlynnt veiðigjaldafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í nýrri könnun Prósents. Sjálfstæðismenn eru einir mótfallnir frumvarpinu.
Aðeins 17 prósent landsmanna eru mótfallnir frumvarpinu samkvæmt könnuninni en 14 prósent svöruðu hvorki né.
Þegar niðurstöður er greindar eftir byggðarlögum sést að um þrír fjórðu allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu styðja frumvarpið og rúmlega 60 prósent fólks á landsbyggðinni. Aðeins 23 prósent fólks á landsbyggðinni er andvígt frumvarpinu.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins skera sig úr með því að vera eini hópurinn sem er andvígur frumvarpinu, það er 63 prósent en 22 prósent þeirra eru hlynntir.
96 prósent Samfylkingarfólks styður frumvarpið, 91 prósent Viðreisnarfólks og 85 prósent kjósenda Flokks fólksins. Hjá Miðflokknum eru hlutföllin nokkuð jöfn, það er 43 prósent styðja frumvarpið en 42 prósent eru á móti. 73 prósent annarra flokka styðja frumvarpið.
Könnunin var gerð 19. júní til 3. júlí. Úrtakið var 1950 og svarhlutfall 50 prósent.