Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Hafnarfjarðarkaupstað til að greiða fyrrverandi starfsmanni samtals 89.899 krónur í vangoldnar persónuuppbætur vegna starfa hans í tímavinnu hjá sveitarfélaginu á árunum 2020–2024. Förin fyrir dóm var dýr því að auki var Hafnarfjarðarkaupstað gert að greiða manninum 900.000 krónur í málskostnað.
Ágreiningur málsins laut í einfölduðu máli að því hvort maðurinn, sem starfaði sem liðveislumaður í tímavinnu fyrir fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar, ætti rétt á persónuuppbótum samkvæmt ákvæðum kjarasamninga sem í gildi voru á starfstíma hans. Þar var ákvæði um að starfsmenn í 100% starfi ættu rétt á persónuuppbót en stefnandi hélt því fram að ákvæðið ætti við allt starfsfólk, þar á meðal tímavinnustarfsmenn, nema annað væri tekið sérstaklega fram, og vísaði til jafnræðissjónarmiða.
Hafnarfjarðarkaupstaður krafðist hins vegar sýknu og hélt því fram að tímavinnustarfsmenn hefðu ekki átt rétt á persónuuppbótum fyrr en með gildistöku nýs kjarasamnings þann 1. apríl 2024, þar sem sérstaklega hefði verið bætt við ákvæði um rétt tímavinnufólks. Þá freistaði bærinn einnig þess að fá kröfuna niðurfelld á grundvelli þess að hún væri fyrnd eða fallin niður fyrir tómlæti.
Dómurinn hafnaði rökum Hafnarfjarðarkaupstaðar í málinu og féllst á kröfur starfsmannsins fyrrverandi. Taldi dómari að kjarasamningsákvæði um persónuuppbætur næðu einnig til tímavinnustarfsmanna, enda hefði ekkert í orðalagi ákvæðisins eða framkvæmd samningsaðila gefið tilefni til að undanskilja þann hóp. Sérstaklega var vísað til þess að sveitarfélagið hefði sjálft greitt persónuuppbætur til annarra tímavinnustarfsmanna í dagvinnu frá og með desember 2020, þrátt fyrir að halda öðru fram í samskiptum við lögmann stefnanda. Þá var ekki fallist á að krafa stefnanda hefði verið fyrnd eða orðið tómlæti að bráð.
Dómarinn skipaði því Hafnarfjarðarbæ að borga 89.899 krónur til starfsmannsins auk dráttarvaxta frá því að málið var höfðað þann 26. nóvember 2024 auk áðurnefndrar upphæðar í málskostnað.