Farþegaflugvél Air France var snúið frá Bandaríkjunum eftir að hafa flogið yfir Ísland. Í þessu undarlega máli hafði vélin ekki lendingarleyfi.
Atvikið átti sér stað laugardaginn 28. júní þegar Airbus vél franska flugfélagsins Air France var snúið við á leið sinni frá París til Chicago. Var því um sjö tíma tilgangslaust flug að ræða.
Eins og segir í frétt Simple Flying um málið þá var um að ræða ósköp venjulegt farþegaflug sem er farið á hverjum einasta degi. Engu að síður hafði vélin ekki fengið lendingarleyfi á O´Hare flugvelli í Chicago.
Þegar vélin hafði verið meira en þrjá tíma í loftinu, skömmu eftir að vélin var komin fram hjá Íslandi, var henni snúið við, aftur til Charles De Gaulle flugvallar í París. Hafði farþegi um borð samband við fréttastofur út af þessu.
Voru farþegar skiljanlega mjög pirraðir á þessu. En Air France bókaði þá á annað flug sunnudaginn 29. júní, utan venjulegrar flugdagskrár.
Ekki liggur fyrir hvers vegna þetta gerðist. Air France hefur notað bæði Airbus og Boening vélar í umræddu flugi og því ekki hægt að skýra málið með því að flugfélagið hafi skipt um vél. Í frétt Simple Flying er sagt að hugsanlega hafi einhver einfaldlega gleymt að fylla út pappíra.