Myndavélabíll lögreglunnar var í gær staðsettur við framkvæmdasvæði hjá Kringlumýrarbraut í Reykjavík, á vegarkaflanum á milli Háaleitisbrautar og Miklubrautar á móts við Bólstaðarhlíð. Þar eru menn og tæki við vinnu mjög nálægt akstursbrautinni og hámarkshraði 30 kílómetrar á klukkustund.
„Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Kringlumýrarbraut til suðurs í eina klukkustund, rétt eftir hádegi, og var brotahlutfallið 38%. Fimm óku á vel yfir 60 og þrír á meira en 70, en allir átta ökumennirnir eiga yfir höfði sér sviptingu ökuréttinda, auk sektar. Eftir vöktunina eiga alls 246 ökumenn von á sekt, en meðalhraði hinna brotlegu var 48. Þarna er núna 30 hámarkshraði vegna framkvæmdanna og ætti það að vera ökumönnum augljóst enda merkingar um það bæði skýrar og greinilegar,“ kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar.
„Þess má geta að lögreglan var við hraðamælingar á þessum stað í síðustu viku og þá var niðurstaðan á svipuðum nótum.“