fbpx
Miðvikudagur 09.júlí 2025
Fréttir

Spyr hvar línan sé dregin eftir „hættulega“ niðurstöðu Landsréttar – „Skotleyfi á alla þá sem fá réttarstöðu sakbornings“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 7. júlí 2025 19:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir sýknudóm Landsréttar í meiðyrðamáli blaðamanns Heimildarinnar gegn bloggara vera áfellisdóm yfir dómskerfinu.

Aðalsteinn Kjartansson hafði kært Pál Vilhjálmsson fyrir fjölda meiðyrða sem féllu á bloggi Páls og vörðuðu svokallað byrlunar- og símastuldarmál.

Héraðsdómur hafði dæmt ummæli Páls um Aðalstein dauð og ómerk og gerði Páli að greiða 1,4 milljónir í málskostnað og 450 þúsund í bætur. Landsréttur sneri þessari niðurstöðu við og sýknaði Pál.

Grafa undan blaðamennsku og lýðræði

Sigríður segir dóm Landsréttar grafa undan fjölmiðlafrelsi og lýðræðislegu hlutverki fjölmiðla með því að gefa skotleyfi á blaðamenn. Samkvæmt Landsrétti eigi blaðamenn bara að þola það að vera sakaðir að ósekju um refsiverða háttsemi á opinberum vettvangi fyrir það eitt að vinna vinnuna sína.

„Slíkar árásir á orðspor og starfsheiður blaðamanna eru ekki aðeins til þess fallnar að fæla þá frá því að fjalla um tiltekin mál, heldur er ætlað að beina athygli frá efni umfjöllunarinnar og grafa þannig undan blaðamennsku og lýðræði,“ skrifar Sigríður Dögg í pistli um málið þar sem hún rekur að ekki hafi verið deilt um það fyrir dómi hvort ummæli Páls um Aðalstein hafi verið sönn – enda voru þau það ekki.

„Þvert á móti voru þau upplogin og féllu vel að ófrægingarherferð sem Samherji hefur um margra ára skeið háð gegn blaðamönnunum Aðalsteini og Helga Seljan sem árið 2019 sviptu hulinni af því er virðast vera stórfelldar mútugreiðslur Samherja til namibískra stjórnmálamanna, skattasniðgöngu og peningaþvætti. Í framhaldi af þeim fréttaflutningi hóf Samherji skipulagða aðför að Aðalsteini og Helga sem hafði þann tilgang að grafa undan æru þeirra og starfsheiðri og að veikja tiltrú almennings á þeim upplýsingum sem fram komu í fréttum af meintri refsiverðri háttsemi Samherja.“

Sigríður rekur að enn þann dag í dag sé ekki búið að sýna fram á að nokkuð í fréttum um háttsemi Samherja í Namibíu hafi verið rangt. Fullyrðingar um að blaðamenn hafi byrlað Páli Steingrímssyni ólyfjan til að stela af honum farsíma eigi sér enga stoð í gögnum lögreglu og enn þann dag í dag hafi lögreglan engar upplýsingar um hvaðan blaðamenn sem skrifuðu um skæruliðadeild Samherja hafi fengið sínar upplýsingar. Páll Vilhjálmsson hafi ítrekað tekið fram að hann hafi öll gögn málsins undir höndum en engu að síður hafi hann logið lögbrotum upp á nafngreinda blaðamenn.

„Landsréttur kemst að þeirri hættulegu niðurstöðu að það megi hann gera án afleiðinga.“

Má berja blaðamenn?

Landsréttur hafi gengið svo langt að segja Pál hafa verið í góðri trú um sannleiksgildi ummæla sinna og vísar til þess að Aðalsteinn hafi um tíma verið sakborningur í lögreglurannsókn, sem þó var síðar felld niður án ákæru og hefur verið harðlega gagnrýnd. Landsréttur hafi til þessa ekki talið það veita aukið svigrúm til að meiða æru manna að þeir hafi verið sakborningar, enda séu menn saklausir uns sekt er sönnuð.

„Niðurstaða Landsréttar í máli Aðalsteins er að þessu leyti þveröfugt við það sem til þessa hefur tíðkast og getur haft þær alvarlegu afleiðingar að nú sé skotleyfi á alla þá sem fá réttarstöðu sakbornings í málum sem eru til rannsóknar hjá lögreglu og leyfilegt sé að saka þá um alvarlega glæpi, hvort sem þeir séu grunaðir um að hafa framið þá eða aðrir sakborningar í sama máli. Hvar dregur Landsréttur línuna? Við ærumeiðingar? Eða má mögulega ganga lengra í árásum á blaðamenn? Má berja blaðamann sem hefur réttarstöðu sakbornings í lögreglurannsókn ef sá sem beitir ofbeldinu telur að blaðamaðurinn hafi til þess unnið? Hvað með blaðamann sem hefur ekki réttarstöðu sakbornings? Má hafa æruna af honum? Þetta þarf Hæstiréttur að skera úr um.“

Sigríður Dögg segir að Hæstiréttur þurfi að skera úr um fleiri álitamál, svo sem hvort blaðamenn hafi afsalað sér réttinum til einkalífs um leið og þeir skrifa undir nafni og hvort blaðamenn njóti kannski ekki lengur verndar gegn upplognum árásum. Sigríður spáir því að ef Hæstiréttur dæmir á sama veg og Landsréttur þá muni málið fara fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Grein Sigríðar má lesa hér. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Íris Líf í samstarf við stórt íslenskt fyrirtæki – Afar ánægð með að þeir prúttuðu niður samninginn

Íris Líf í samstarf við stórt íslenskt fyrirtæki – Afar ánægð með að þeir prúttuðu niður samninginn
Fréttir
Í gær

Landsréttur slær á putta héraðsdóms – Mál óprúttins vörubílstjóra sem keyrði á lögreglubifreið fer fyrir dóm

Landsréttur slær á putta héraðsdóms – Mál óprúttins vörubílstjóra sem keyrði á lögreglubifreið fer fyrir dóm