Hin ástralska Erin Patterson hefur verið fundin sek um að hafa myrt þrjár manneskjur með því að nota eitraða sveppi í máltíð sem hún bauð þeim í. Tólf manna kviðdómur í bænum Morwell í Viktoríufylki komst að þessari niðurstöðu en réttarhöld í málinu hafa staðið yfir undanfarnar tíu vikur og vakið mikla athygli.
Það sama má segja um sjálft málið sem komst í heimsfréttirnar í júlí 2023. Þá bauð Patterson tengdaforeldrum sínum og vinum í mat og bauð upp á girnilega Wellington-nautalund. Svo fór hins vegar að tengdaforeldrarnir og annar gestur, systir tengdamömmunnar, dóu í kjölfar matarboðsins og annar gestur, maki systurinnar, veiktist alvarlega.
Í ljós kom að baneitraðir sveppir hefðu verið notaðir í matargerðina en Patterson hefur alltaf haldið því fram að hún hafi fengið sveppina fyrir mistök á markaði og ekki haft hugmynd um hættuna sem stafaði af þeim.
Ýmislegt kom þó í ljós við réttarhöldin, til að mynda borðaði Errin sjálf af disk í öðrum lit í matarboðinu og þá hafði hún rannsakað eitraða sveppi á netinu.
Þá hafði eiginmaður hennar fyrrverandi, sem boðaði forföll í matarboðið, ítrekað sakað hana um að hafa reynt að eitra fyrir sér þegar hjónaband þeirra var að fara í vaskinn. Börn þeirra, voru einnig viðstödd matarboðið en fengu annað að borða en nautalundina eitruðu.
Ýmislegt sem Errin hafði líka haldið fram reyndist vera lygi. Hún hafði sagt að nýlega greint krabbamein hefði orðið til þess að hún blés til matarboðsins en það var fjarri sannleikanum. Þá reyndi hún að leika það að hún hefði einnig orðið fyrir eitrun af völdum sveppanna, sem reyndist ekki rétt.
Errin á yfir höfði sér lífstíðarfangelsisdóm en dómari mun á næstu vikum úrskurða um það.