fbpx
Mánudagur 28.júlí 2025
Fréttir

Vilhjálmur segir hagsmuni Íslands í húfi – „Nú er ekki tími fyrir pólitískar skotgrafir eða flokkadrátt“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 28. júlí 2025 13:34

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, skorar á þingmenn að stíga nú upp úr pólitískum skotgröfum sínum svo þeir geti tekið höndum saman til að berjast gegn fyrirhuguðum verndartollum Evrópusambandsins. Hér sé um mál að ræða sem snýst um lífsafkomu, atvinnuöryggi og hagsmuni þjóðarinnar.

Vilhjálmur skrifar á Facebook:

„Nú er ekki tími fyrir skotgrafir – hagsmunir Íslands eru í húfi.

Ég sem formaður Verkalýðsfélags Akraness skora á alla stjórnmálamenn – úr öllum flokkum – að sameinast um að verja hagsmuni Íslands í ljósi þeirrar ógnar sem vofir nú yfir vegna fyrirhugaðra verndartolla Evrópusambandsins á útflutning íslensks járnblendis.

Slíkir tollar geta haft mjög alvarleg áhrif á störf, verðmætasköpun og tekjur þjóðarbúsins – sérstaklega á svæðum eins og Grundartanga þar sem járnblendiiðnaður er burðarás í atvinnulífinu.
Nú er ekki tími fyrir pólitískar skotgrafir eða flokkadrátt. Nú er tími einnar raddar, skýrrar forystu og sameiginlegrar hagsmunagæslu.

Ég fagna því að þingmenn Norðvesturkjördæmis ætli að koma saman til fundar til að fara yfir stöðuna og fá nánari upplýsingar frá utanríkisráðherra sem hefur tilkynnt að hún muni koma á fundinn. Það er brýnt að Alþingi standi saman og taki málið föstum tökum.

Þetta snýst um lífsafkomu fólks, atvinnuöryggi og hagsmuni þjóðarinnar – sem og þá kröfu að Evrópusambandið virði EES-samninginn. Það er mat margra að fyrirhugaðir verndartollar séu gróft brot á þeim samningi og kalli á afdráttarlaus viðbrögð íslenskra stjórnvalda.“

Greint var frá fyrirhuguðum verndartollum fyrir helgi en viðbrögð stjórnmálamanna hafa þó verið hápólitísk. Stjórnarandstaðan fór strax í að saka stjórnarliða um að hafa haldið þessum verndartollum leyndum fyrir stjórnarandstöðunni og hjóluðu í utanríkisráðherra fyrir að hafa ekki vakið máls á þessum fyrirætlunum á fundi utanríkisnefndar Alþingis í síðustu viku. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, hefur þó fullyrt að hún hafi minnst á málið á fundinum en hafi þó ekki getað farið djúpt í málið þar sem um trúnaðarupplýsingar var að ræða og stjórnarandstaðan hafði krafist þess að trúnaður ríkti ekki um áðurnefndan fund.

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokks hefur sakað Evrópusambandið um að ætla að brjóta gegn EES-samningnum með fyrirhuguðum tollum og fyrrum forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, segir ESB brjóta gegn fjórfrelsinu sem er meginstef samningsins.

Hvers vegna verndartollar?

Bæjarráð Akraness hefur krafist þess að ríkisstjórnin geri allt sem hún getur til að stöðva þessa „óskiljanlegu“ tolla á járnblendi og kísiljárn, en eini framleiðandi kísiljárns, Elkem, er staðsettur á Grundartanga og er eitt mikilvægasta atvinnufyrirtæki Akraness.

En hvers vegna er verið að setja þessa tolla?

Að sögn ESB hefur iðnaður í sambandinu liðið fyrir mikinn innflutning á járnblendi og kísiljárni. Fyrirtæki hafi orðið fyrir miklu fjárhagstjóni. Samkvæmt norska miðlinum NRK ætlar ESB að ákvarða tiltekið lágmarksverð fyrir bæði járnblendi og kísiljárn og ætli innflutningsaðili að bjóða lægra en það verð munu tollarnir virkjast, annars ekki. Því er hér um tilraun til að koma í veg fyrir undirboð að ræða.

Framkvæmdastjórn ESB tilkynnti í desember fyrirhugaða rannsókn á innflutningi járnblendi og kísiljárns eftir beiðni frá nokkrum aðildarríkjum. Til stóð að meta hvort aukinn innflutningur væri að ógna framleiðendum innan sambandsins. Innflutningur hafði þá aukist gífurlega frá árinu 2020 og offramboð væri að fara að ná sögulegu stigi. Þetta hafi leitt til þess að verð á innflutningi sé verulega undir verði innan ESB sem hafi dregið úr bæði markaðshlutdeild og arðsemi innlendra framleiðenda.

Tollarnir byggja á ákvæðum í EES-samningnum um öryggisráðstafanir, en þar segir í 112. gr. samningsins að ef upp koma meðal annars alvarlegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum sem líklegt er að verði viðvarandi geti samningsaðili gripið til einhliða ráðstafana. Þessar ráðstafanir þurfa að gæta meðalhófs og verða að teljast brjáðnauðsynlegar til að ráða bót á aðstæðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hönnun nýja landspítalans fellur ekki í kramið hjá Illuga – „Þetta er ekki fallegt“

Hönnun nýja landspítalans fellur ekki í kramið hjá Illuga – „Þetta er ekki fallegt“
Fréttir
Í gær

Minnstu munaði að Einar Rúnar missti af 57 ára afmælisdeginum – Þvingaður út af vegi við Kvísker

Minnstu munaði að Einar Rúnar missti af 57 ára afmælisdeginum – Þvingaður út af vegi við Kvísker
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fjölnir spenntur fyrir því að sjá Skjöld Íslands í Druslugöngunni

Fjölnir spenntur fyrir því að sjá Skjöld Íslands í Druslugöngunni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bíræfnir þjófar stálu nokkur hundruð lítrum af díselolíu – „Lögreglan hefur ekki áhuga á að stoppa svona lið“ – Myndband

Bíræfnir þjófar stálu nokkur hundruð lítrum af díselolíu – „Lögreglan hefur ekki áhuga á að stoppa svona lið“ – Myndband