Trump var „verkfæri guðs“ sem átti að taka til í hinum „synduga“ heimi að mati tryggra stuðningsmanna hans. En ógeðfellt afmæliskort til barnaníðings, dularfullar upptökur úr eftirlitsmyndavélum í fangelsi og fregnir af því að nafn Trump komi fram í Epstein-skjölunum, geta gert út af við „dýrlingastöðu“ hans að mati sérfræðings.
Það var í maí sem Pam Bondi, dómsmálaráðherra, skýrði Trump frá því að nafn hans væri í Epstein-skjölunum. Wall Street Journal skýrði fyrst frá þessu og í kjölfarið fylgdu aðrir stórir bandarískir fjölmiðlar.
Talsmaður Hvíta hússins sagði þetta vera „fake news“.
Viku áður en Wall Street Journal birti þessa frétt, birti blaðið grein um afmæliskort sem Trump er sagður hafa sent Epstein. Er Trump sagður hafa teiknað nakta konu á kortið og óskað Epstein til hamingu með afmælið. Trump brást illa við þessu og hefur höfðað mál á hendur blaðinu og krefst 10 milljarða dollara í miskabætur.
Niels Bjerre-Poulsen, lektor við miðstöð bandarískra rannsókna við danska SDU háskólann, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að viðbrögð Trump minni svolítið á hasarmynd þar sem söguhetjan er elt í gegnum eldhús og hendir diskum, pönnum og pottum á gólfið til að hræða þá sem elta hana.
Hann vildi ekki fullyrða að Trump sé að missa tökin á MAGA-hreyfingunni og Repúblikanaflokknum, þrátt fyrir að margt bendi til þess. „Ég hef séð hvernig mörkin hafa stöðugt færst til,“ sagði hann.
Hann sagði að á fyrra kjörtímabili Trump og þegar réttarhöldin yfir honum stóðu yfir í ríkisrétti hafi hann talið að Trump myndi missa stuðning aðdáenda sinna. „Ég taldi að árásin á þinghúsið 2021 myndi vera vendipunkturinn en í síðustu kosningum sýndu kjósendur að þeir voru ekki á sama máli,“ sagði hann.
Hann sagði einnig að nú sé málið öðruvísi því það komi við svolítið viðkvæmt hjá kjósendum Trump.
Samsæriskenning með „kjöt á beinunum“
Á níunda áratugnum og í upphafi þess tíunda hélt Jeffrey Epstein stór samkvæmi þar sem þungavigtarfólk í bandarísku samfélagi var til staðar, þar á meðal Bill Gates, Kevin Spacey, Bill Clinton og Donald Trump.
Epstein tók eigið líf í fangaklefa í New York 2019. Þá hafði hann verið í gæsluvarðhaldi í einn mánuð, grunaður um kerfisbundna misnotkun og mansal á unglingsstúlkum.
Í fyrrgreindu afmæliskorti, sem Wall Street Journal skýrði frá, er Trump sagður hafa teiknað nakta konu og skrifað nafn sitt undir eins og kynfærahár hennar og óskað Epstein heilla á fimmtugsafmæli hans: „Til hamingju með afmælið og megi hver dagur áfram vera frábært leyndarmál.“
Bjerre-Poulsen sagði að stuðningsfólk Trump elski samsæriskenningar og hér sé um samsæri að ræða þar sem sé kjöt á beinunum: „Dularfullur auðkýfingur, sem átti eyju og flugvél og var einnig barnaníðingur og átti fjölda áhrifamikilla vina, sem tók eigið líf í fangelsi.“
Dómsmálaráðuneyti Trump birti nýlega upptöku úr eftirlitsmyndavélum fangelsisins nóttina sem Epstein tók eigið líf. Um 10 klukkustunda langa upptöku er að ræða og sýnir hún að engin fór í klefa Epstein. Þetta er að sögn ráðuneytisins sönnun þess að Epstein hafi tekið eigið líf en ekki verið myrtur.
En það vantar um eina mínútu í upptökuna og það hefur að vonum kveikt undir samsæriskenningum og vangaveltum fólks.
„Og svo vildi stjórn Trump ekki lengur birta nöfnin sem koma fram í Epstein-skjölunum, þrátt fyrir að hafa lofað að gera það. Síðan birtir stjórn Trump upptöku úr fangelsi Epstein, þar sem búið er að klippa eina mínútu út. Þú færð eiginlega ekki betri samsæriskenningu en það,“ sagði Bjerre-Poulsen.
Versta málið til þessa
Hann sagði að það sem Trump óttist mest sé að verða dreginn fyrir ríkisrétt: „Hann óttast að missa þá vernd sem hann hefur haft. Verndina sem gerði að verkum að hann komast í gegnum tvenn ríkisréttarhöld.“
Hann sagðist telja að þeir Repúblikanar sem hafa verndað Trump fram að þessu séu nú á krossgötum: „Margir Repúblikanar á þingi eru undir miklum þrýstingi frá baklandi sínu sem vill sjá Epstein-skjölin. Um leið eru þeir undir þrýstingi frá Trump. Nú tala margir um yfirheyrslu í stíl við í Watergate-málinu en bara miklu umfangsmeiri. Ef maður horfir á viðbrögð Trump, þá bera þau merki ákveðinnar örvæntingar, eitthvað sem við höfum ekki séð áður. Nú getur hann ekki lengur stýrt söguþræðinum.“
Hann sagðist telja að af þessum sökum kvíði Trump nú fyrir þingkosningunum á næsta ári, þær geti endað illa fyrir hann. Ef Demókratar fái meirihluta í báðum þingdeildum megi reikna með að Trump verði dreginn fyrir ríkisrétt: „Þetta mál er það versta fyrir hann fram að þessu.“