Rauða regnhlífin kallar eftir lagabreytingum í kynlífsiðnaðinum og setja spurningarmerki við aðkomu landamærastofnunar Evrópusambandsins, Frontex, að aðgerðum á Íslandi vegna gruns um mansal. Þetta kemur fram í yfirlýsingu samtakanna en Rauða regnhlífin eru hagsmunasamtök sem berjast fyrir öryggi og réttindum fólks í kynlífsvinnu á Íslandi.
Íslensk lögregluyfirvöld fundu í aðgerðunum 36 hugsanlega þolendur mansals, en um var að ræða alþjóðlega lögregluaðgerð sem fór fram dagana 1-6. júní. Samkvæmt tilkynningu lögreglu var farið á þriðja tug staða eða heimila til að athuga með 250 manns. Aðgerðirnar voru alþjóðlegar, báru heitið Global Chain og fóru fram í 43 löndum á alþjóðlegum aðgerðardögum Europol, Frontex og Interpol gegn mansali.
Rauða regnhlífin bendir á að starf Frontex felist fyrst og fremst í því að halda „óæskulegu“ fólki frá landamærum Evrópu. Stofnunin hafi ekki það markmið að skapa öryggi fyrir þolendur mansals.
Eins velta samtökin fyrir sér stöðu þeirra rúmlega 200 sem lögreglan hér á landi athugaði með í aðgerðum sínum en taldi ekki leika grun á mansali.
„Hvað varð um þau? Voru laun þeirra gerð upptæk í þessum aðgerðum? Fengu/fá þau peninginn til baka ef hann var gerður upptækur? Voru þau látin standa úti eða frammi á göngum og ef svo var þeim gefið aðgengi að yfirhöfnunum sínum? Var þeim sagt satt um réttindi þeirra og stöðu? Stendur til að brottvísa þeim sem voru innflytjendur að selja vændi eða gera kynlífsvinnu? Fá þau endurkomubann? Munu þessar aðgerðir verða skráðar á sakaskrá þeirra? Er lögreglan að fara að sekta einhverjar þeirra fyrir að auglýsa? Var þeim boðinn sálfræðistuðningur eftir þessi atvik?“
Eins velta samtökin fyrir sér stöðu þeirra 36 sem er grunað að séu þolendur kynlífsmansals, hvort þeim verði brottvísað og hvort peningar þeirra hafi verið gerðir upptækir.
Rauða regnhlífin rekur að það sé fátt um að velja á Íslandi fyrir fólk í kynlífsiðnaði hvað öryggi varðar. Það sé refsivert að auglýsa þjónustuna og þolendur vændis hafa fengið háar sektir fyrir slík brot. Eins er ólögmætt að leigja þeim húsnæði. Kúnnar vilja sjaldan gefa upp réttar upplýsingar af ótta við refsingu sem gerir seljendum vændis erfiðara með öryggisráðstafanir. Eins er ekki hægt að kaupa sérstaka öryggisþjónustu.
„Ef við viljum kæra ofbeldisatvik hefur lögreglan sagt það ekki þess virði, eða hún fer á eftir brotamönnum fyrir kaup frekar en fyrir ofbeldi og byrjar svo að vakta okkur sem gerir að verkum að við missum kúnna og endum í meiri neyð fyrir það að leita okkar réttar.“
Samtökin segja að í kynlífsiðnaði megi finna fólk sem vill vera þar, fólk sem vill það ekki en neyðist til þess og svo fólk sem er þolandi mansals.
„Við höfum séð í þessari umfjöllun talað um karlmenn sem vísvitandi eru að leitast í þolendur mansals. Ef það er staðan þá eigum við ekki að sætta okkur við að vera „heppin“ að hægt sé að lögsækja þá fyrir kaup undir sænsku leiðinni. Sænska leiðin er ekki góð ef það eina góða við hana eru tæknileg atriði eins og að ná nauðgara fyrir kaup, en ekki fyrir nauðgun. Lögreglan á ekki að bregðast eins við nauðgara sem sækir í þolendur mansals og þau bregðast við kúnnum kynlífsverkafólks sem að sýna virðingu og kurteisi, greiða rétt laun og fara ekki yfir mörk. Þetta lýsir brotnu kerfi.“
Það sé starf ríkis og lögreglu að setja og halda uppi lögum og reglum í þessum málaflokkum sem veita öryggi, stuðning og réttindi til þolenda mansals, þolenda vændis og kynlífsverkafólks. Hinu opinbera beri einnig að taka ofbeldisbrotum gegn þessum hópi alvarlega.
Rauða regnhlífin kallar eftir lausnum sem virða sjálfsákvörðunarrétt þeirra sem eru að selja og setja heimilisaðstæður þeirra ekki í hættu. Núverandi lagakerfi sé ekki að standa sig.
„Við í Rauðu regnhlífinni styðjum við fulla afglæpavæðingu. Afglæpavæðing tekur valdið af mansalsgerendum sem hagnast á óskýrum lögum til þess að halda þolendum frá því að leita sér hjálpar. Í löndum sem búið er að afglæpavæða alveg kynlífsiðnaðinn er hvorki hækkun í mansalsmálum né hækkun á aðsókn í kynlífsvinnu eða í kaup á kynlífsþjónustu.“