Mikið af fólki, ekki síst erlendir ferðamenn, stoppa gjarnan bíla sína við Reykjanesbrautina til þess að bera eldgosið augum. Hafa heilu rúturnar stoppað við þröngan veginn til að hleypa ferðamönnum að skoða.
Eftir að eldgosið við Grindavík hófst í nótt hafa margir, sér í lagi erlendir ferðamenn, reynt að bera það augum. Talsvert er um að þeir stöðvi bíla sína við Reykjanesbrautina og fari úr þeim.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur biðlað til fólks að leggja ekki bílum á þessum stað. Lokað hefur verið fyrir umferð til Grindavíkur og Bláa lónsins.
„Eldgos er í gangi og aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara. Þá geta hættur leynst utan merktra svæða,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Engu að síður stöðvar fólk bíla sína þarna með tilheyrandi hættu. Bæði einstaklingar og atvinnubílstjórar.
„Við sáum heilu ferðamannarúturnar stoppa á veginum. Gerið það hættið þessu,“ segir netverji í umræðum á samfélagsmiðlinum Reddit og birtir mynd af fjölda bíla við veginn.