Þriggja ára stúlka á leikskólanum Urrðarbóli í Garðabæ náði að opna hlið leikskólans og lauma sér út af honum í gær. Stúlkan fannst nokkru síðar í Bónus-verslun í Kauptúni sem er í um 300 metra fjarlægð. Þar var það nágranni sem kom auga á stúlkuna og gerði foreldrum og lögreglu viðvart. RÚV greinir frá.
Í fréttinni kemur fram að starfsfólk leikskólans hafi ekki áttað sig á því að stúlkan væri horfin þrátt fyrir að þó nokkur tími hefði verið liðinn frá hvarfi hennar. Starfsfólk væri í áfalli yfir málinu.
Móðir stúlkunnar segir í viðtali við RÚV að hún sé þakklát fyrir að ekki hafi farið verr en ekki hafi borist svör um hvað átti sér stað. Stúlkan fór ekki í leikskólann í dag en verið er að fara yfir öryggismál og verkferla í leikskólanum vegna málsins.