Bandarískur maður á fertugsaldri var handtekinn í apríl, ákærður fyrir að flytja inn barnaklám af börnum allt niður í fjögurra ára gömul. Grunsemdir vöknuðu um manninn eftir að hann kom frá Íslandi í október.
Maðurinn heitir Brent Vreeland og er 36 ára gamall, búsettur í bænum Ashland í Massachusetts fylki. Í október vöknuðu grunsemdir eftir að hann flaug frá Keflavík til Boston. Var ákveðið að gera aðra leit á honum síðar.
Sú leit fór fram í apríl og fannst þá barnaklám í fórum hans og fórnarlömbin talin vera á aldrinum fjögurra til tíu ára gömul. Voru þetta um 30 skrár og talið að hann hafi notað forritið Telegram til að flytja þær. Í forritinu sést meðal annars að Vreeland hafi óskað eftir að fá efni af „yngstu börnum sem þeir eiga.“
Vreeland hefur verið ákærður fyrir vörslu, dreifingu og innflutning á barnaklámi til Bandaríkjanna. Ef fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsisdóm og að minnsta kosti 5 ára dóm sem og sekt upp á 250 þúsund dollara, eða 30 milljónir króna. Eftir það tæki við ævilöng eftirfylgni.