Ekkert lát virðist vera á veðurblíðunni sem gengur yfir landið ef marka má Einar Sveinbjörnsson veðurfræðing. Heitt loft gekk yfir landið í gær og fór hitinn víða upp í 26-27 stig. Hæsti dagsins mældist á Hjarðarlandi, þar sem hitinn fór í 29,5°C sem er nýtt staðarmet. Í Reykjavík fór hitinn í fyrsta sinn á þessu ári yfir 20 gráður þegar hitinn mældist 20,8°C við Veðurstofuna.
Eina Sveinbjörnsson, veðufræðingur hjá Blika, segir að allt bendi til þess að enn hlýrra loft gangi yfir landið í dag.
„Byggi það meira á tilfinningu, en held að 29,5 stigin í dag [gær] á Hjarðarlandi verði samt ekki toppuð. Meira verður trúlega skýjað af háskýjum. Það hefur áhrif! Þó að líkindum léttskýjað norðaustanlands. Ágætir hitamælar eru, s.s. í Möðrudal, Grímsstöðum á Fjöllum og á Neslandatanga í Mývatnssveit. Fylgst verður með þeim á morgun (og líka öllum hinum),“ skrifar Einar í færslu á Facebook-síðu sinni.