Glans opnaði nýja, sjálfvirka bílaþvottastöð hjá Olís á Selfossi sl. föstudag.
Þetta er önnur Glans-stöðin sem Olís tekur í notkun en fyrr á þessu ári var opnuð sjálfvirk stöð hjá Olís við Langatanga í Mosfellsbæ. Vegleg opnunarhátíð var við þvottastöðina á Selfossi laugardaginn 12. júlí þar sem þau Ingunn Svala Leifsdóttir forstjóri Olís og Sveinn Ægir Birgisson, formaður bæjarráðs Árborgar, klipptu á borða og opnuðu formlega þessa glæsilegu þvottastöð, eins og segir í tilkynningu.
Gestum og gangandi var boðið upp á kaffi og kökusneið, börnin fengu nýja íspinnann „Olís með dýfu“ og Magnús Kjartan söngvari Stuðlabandsins tók nokkur lög.
„Við erum ótrúlega ánægð að hafa opnað þessa glæsilegu bílaþvottastöð og óskum Selfyssingum og öðrum íbúum Árborgar til hamingju með Glans,“ segir Ingunn Svala og bætir við: „Þessi stöð er annar áfangi þeirrar vegferðar sem við erum á með Glans og innan skamms munum við einnig opna þvottastöðvar á Olís við Gullinbrú og á Akureyri.“
„Ég óska íbúum til hamingju með þessa glæsilegu þjónustu. Þetta er enn ein rósin í hnappagatið í þjónustu Olís við íbúa og gesti hér í sveitarfélaginu, og alla sem fara hér um, allan sólarhringinn,” segir Sveinn Ægir Birgisson, formaður bæjarráðs Árborgar.
Með Olís – ÓB appinu er bæði hægt að kaupa stakan þvott hjá Glans eða áskrift að ótakmörkuðum þvotti sem gildir einn mánuð í senn.