„Þegar ég var ung lenti ég í ofbeldissambandi. Þegar ég reyndi að segja honum að þetta væri búið og að ég vildi ekki halda þessu áfram og var að reyna að hætta með honum þá bara brosti hann og sagði bara: „Ég veit þú elskar mig, hættu þessu greyið mitt.“ Þetta var svona sálfræðilegt ofbeldi,“
segir söngkonan Alda Björk Ólafsdóttir í viðtali við Dagmál þar sem hún opnar sig um líkamlegt og andlegt ofbeldi sem fyrrum kærasti hennar beitti hana.
Alda Björk segist hafa verið auðvelt fórnarlamb vegna ungs aldurs, aðstæðna og reynsluleysis. „Ég var svo ung og ég var ekki orðin þessi manneskja sem ég er í dag. Þó svo að heilinn í mér hafi aðeins útilokað þetta ofbeldi frá honum þá urðu systkini mín vitni að því líka.“
Þegar ofbeldið átti sér stað var Alda Björk á hápunkti tónlistarferilsins og hafði ofbeldið mikil áhrif á hana og segir hún það hafa verið mikið áfall sem erfitt hafi verið að vinna sig úr, þessi slæma lífsreynsla hafa litað tilfinningalíf hennar dökkum litum. Hún hefur þó reynt að vera opin með það sem gerðist, til dæmis með því að leyfa sögu sinni og upplifunum að hljóma í gegnum lög sín.
Alda Björk segist ítrekað hafa reynt að losna úr sambandinu. Að lokum hafi hún séð að eina leiðin út væri að eignast annan kærasta, hún kynntist öðrum manni í gegnum vinnuna og flutti heim til hans.
Fyrri kærastinn var þó ekki alveg búinn að gefast upp.
„Í síðasta skipti sem ég sá hann þá reyndi hann að ræna mér. Við vorum á bensínstöð, ég og nýi kærastinn minn. Hann fer inn að borga og ég sit úti í bíl á meðan. Þá kemur hann, ofbeldismaðurinn, á þessum græna ógeðslega bíl sem hann átti, og bað mig um að koma inn í bíl til sín því hann langaði svo til að biðja mig afsökunar á hinu og þessu. Og ég fer út úr bílnum og inn í hans og spyr hvað hann vilji. Það sem bjargaði mér var að ég var með annan fótinn út fyrir þannig að bílhurðin lokaðist ekki. Vegna þess að þegar ég er komin inn í bíl þá ýtti hann á læsinguna sem læsir öllum hurðum og brunaði af stað. En af því að ég var með annan fótinn út fyrir hurðina þannig að hún læstist ekki þá gat ég hent mér út. Ég henti mér út úr bílnum. Og ég veit það, eftir að hafa horft mikið á sakamálaþætti í gegnum tíðina, að þetta er alveg 100% týpan sem hefði tekið mig eitthvert og hann hefði drepið mig.“
Alda Björk kærði manninn aldrei, en óttaðist hann í mörg ár eftir atvikið og þóttist sjá hann í mörgum öðrum karlmönnum.