Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa sent frá sér yfirlýsingu í tilefni þess að 71. gr. þingskaparlaga var beitt á 2. umræðu um veiðigjaldafrumvarpið á Alþingi í dag. Umræðan var orðin sú lengsta í Íslandssögunni, en nú fer frumvarpið aftur í nefnd áður en það kemur til 3. umræðu á þingi og loks í atkvæðisgreiðslu og verður þá eftir atvikum að lögum.
SFS segir að allt frá því að frumvarpið var fyrst lagt fram hafi fjölmargir hagaðilar um land allt varað við áhrifum þess, þeirra á meðal sveitarfélög og fyrirtæki í sjávarútvegi. Ekki hafi þó reynst vilji hjá meirihlutanum til að ræða álitamálin þó svo að bent hafi verið á galla, ranga útreikninga og rangar forsendur.
„Áhrifamat hefur ekki enn verið unnið og lítill tími var gefinn til umsagna. Svo virðist sem ekki hafi staðið til að ræða málið efnislega, hvað þá ítarlega.“
SFS segir að málið hafi verið keyrt áfram á órökstuddum yfirlýsingum um að þessi hækkun muni ekki hafa áhrif á rekstur fyrirtækja. SFS segir það rangt mat og hafi samtökin ítrekað bent á það. Þessi boðaða hækkun sé þegar farin að hafa neikvæð áhrif enda sú aðferðafræði sem boðuð er í frumvarpinu meingölluð.
„Vandséð er hvað það er sem veldur því að stjórnvöld eru svo einbeitt í því að skaða hundruð fyrirtækja í sjávarútvegi, stór sem smá, og þar með hag þúsunda sem byggja afkomu sína að meira eða minna leyti á sjávarútvegi. Fyrir því finnast hvorki sanngjörn né efnahagsleg rök.“
Hagsæld og velferð Íslendinga byggist á því að útflutningur vaxi, þar með talið útflutningur frá sjávarútvegi. SFS óttast að þessi hækkun muni draga úr samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs og auka líkurnar á því að íslenskur fiskur verði í auknum mæli fluttur óunninn úr landi samhliða og þar með mikilvæg verðmætasköpun með. Eins muni draga úr fjárfestingu í búnaði, tækjum og nýsköpun.
„Fram undan er því allra tap vegna vanhugsaðrar hækkunar.“
SFS segir sjávarútveginn ekki skorast undan því að greiða eðlilega skatta og gjöld, en eitthvað þurfi undan að láta þegar stefnan er sett á að taka meira en 70 prósent af hagnaði vegna veiðigjalds. Þá muni fyrirtæki í erlendri samkeppni ekki hafa um annað að velja en að velta kostnaðarhækkunum heima fyrir út í verð vöru.
„Fjöldi fyrirtækja í sjávarútvegi stendur því frammi fyrir erfiðum ákvörðunum á næstu misserum. Það má vona að þau stjórnvöld sem settu leikreglurnar hafi þá skilning á þeim sársauka sem þær kunna að valda.“
Yfirlýsingin í heild sinni:
Meðfylgjandi er yfirlýsing frá SFS vegna ákvörðunar forseta Alþingis að beita 71. grein þing¬skap¬ar¬laga.
Allt frá því að frumvarp um verulega og fyrirvaralausa hækkun veiðigjalds var lagt fram hafa fjölmargir hagaðilar um allt land varað við áhrifum þess. Þar á meðal hafa verið sveitarfélög og fyrirtæki í sjávarútvegi, iðnaði, tækni og nýsköpun. Ekki hefur reynst vilji til þess að ræða álitamálin þrátt fyrir að ítrekað hafi verið bent á galla, ranga útreikninga og rangar forsendur. Áhrifamat hefur ekki enn verið unnið og lítill tími var gefinn til umsagna. Svo virðist sem ekki hafi staðið til að ræða málið efnislega, hvað þá ítarlega.
Málið hefur verið keyrt áfram á órökstuddum yfirlýsingum um að stórhækkun á veiðigjaldi muni ekki hafa nein áhrif á rekstur fyrirtækja. Það er rangt. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa bent á það og boðuð hækkun er þegar farin að hafa neikvæð áhrif. Þá er aðferðafræði sú sem boðuð er í frumvarpinu meingölluð enda hafa stjórnvöld ítrekað þurft að leiðrétta „leiðréttinguna“.
Vandséð er hvað það er sem veldur því að stjórnvöld eru svo einbeitt í því að skaða hundruð fyrirtækja í sjávarútvegi, stór sem smá, og þar með hag þúsunda sem byggja afkomu sína að meira eða minna leyti á sjávarútvegi. Fyrir því finnast hvorki sanngjörn né efnahagsleg rök.
Hagsæld og velferð okkar fram veginn byggjast á því að útflutningur vaxi, þar með talið frá sjávarútvegi. Boðuð hækkun mun því miður draga verulega úr samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Fyrirséð er að hún muni einnig stórauka líkurnar á því að íslenskur fiskur verði í auknum mæli fluttur óunninn úr landi og mikilvæg verðmætasköpun þar með. Þegar ríkið tekur til muna stærri skerf af afkomu fyrirtækja mun eðli máls samkvæmt draga úr fjárfestingum í búnaði, tækni og nýsköpun. Fram undan er því allra tap vegna vanhugsaðrar hækkunar.
Sjávarútvegurinn skorast ekki undan því að greiða eðlilega skatta og gjöld. En þegar stefnan er að taka meira en 70% af hagnaði fiskveiða vegna hærra veiðigjalds, fyrir utan önnur gjöld, þá er einboðið að eitthvað verði undan að láta. Fyrir fyrirtæki í erlendri samkeppni er ekki valkostur að velta kostnaðarhækkunum heima fyrir út í verð vöru. Fjöldi fyrirtækja í sjávarútvegi stendur því frammi fyrir erfiðum ákvörðunum á næstu misserum. Það má vona að þau stjórnvöld sem settu leikreglurnar hafi þá skilning á þeim sársauka sem þær kunna að valda.
Gunnþór Ingvason, formaður SFS
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS