Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins, fer hörðum orðum um málþóf stjórnarandstöðunnar í skoðanagrein á Vísir.is. „Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa flutt um 1.400 ræður og andsvör yfir sjálfum sér í málþófinu. Ræður sem oft á tíðum fjalla alls ekki um efnisatriði frumvarpsins heldur um allt önnur mál. Til að mynda um Flokk fólksins og formann hans sem þessir sömu þingmenn virðast vægast sagt leggja mikla fæð á,“ segir Kolbrún í grein sinni.
Hún segir málþófið til skammar enda sé með því hindruð framganga mikilla framfaramála:
„Á dagskrá Alþingis í dag er til dæmis samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar sem færir öldruðum og öryrkjum miklar kjarabætur, frumvarp um menntasjóð námsmanna sem kveður á um námsstyrki og endurgreiðslur, frumvarp um stuðing við einkarekna fjölmiðla og svona mætti lengi telja.
Ekkert þessara mála mun komast til umræðu ef fram heldur sem horfir í vörnum stjórnarandstöðunnar fyrir hagsmunum ríkustu útgerða landsins og eigenda þeirra. Þingmenn stjórnarflokkanna hafa haldið ró sinni í þessar 110-120 klukkustundir sem minnihlutinn hefur masað í um þrjár vinnuvikur í klukkustundum talið. Stjórnarliðar eru staðráðnir í að greidd verði að lokum atkvæði um það mikilvæga réttlætismál sem veiðigjaldafrumvarpið er. Að útgerðin greiði sanngjarnt gjald fyrir einkarétt sinn á nýtingu auðlinda í eigu þjóðarinnar.“
Kolbrún bendir á að málþófið mælist illa fyrir hjá þjóðinni enda komi stjórnarandstaðan illa út í skoðanakönnunum þessa dagana. Segir hún stjórnarandstöðuna vera sambandslausa við meirihluta þjóðarinnar. Hún segir ennfremur:
„En allt tekur enda að lokum, líka innihaldslaust málþóf. Á þessari stundu er hins vegar ekki ljóst hvort minnihlutinn á Alþingi lýkur máli sínum í þessum mánuði eða þeim næsta, eða áður en nýtt þing kemur saman í haust. Það kemur í ljós.“
Greinina má lesa hér.