Gítarleikarinn Jake E. Lee sem varð fyrir alvarlegri og handahófskenndri skotárás í haust mun koma fram á lokatónleikum þungarokkssveitarinnar Black Sabbath á laugardag. Mennirnir sem skutu hann voru gómaðir og höfðu myrt tvo aðra.
Greint var frá því í október síðastliðnum að Jake E. Lee hafi orðið fyrir handahófskenndri skotárás. Lee er einna þekktastur fyrir að hafa verið gítarleikari í hljómsveit Ozzy Osbourne um miðjan níunda áratuginn og þótti ansi lunkinn á strengina sex.
Lee, sem er 68 ára gamall, var á göngu með hundinn sinn í borginni Las Vegas þegar hann var skotinn þrisvar sinnum. Ein kúlan fór í bringuna, ein í fótinn og ein í handlegginn. Blessunarlega hafnaði engin þeirra í mikilvægu líffæri og Lee náði sér að fullu.
Eins og segir í frétt miðilsins Metal Addicts þá greinir Lee frá því að árásarmennirnir tveir hafi verið gómaðir og dæmdir. Refsingin yfir þeim verði ákveðin í næsta mánuði.
„Byssan var tengd við tvö önnur morð þannig að málið mitt er hálfgert aukaatriði. Þeir fara í fangelsi í langan tíma,“ sagði Lee.
Lee greindi einnig frá því að hann muni koma fram á lokatónleikum Black Sabbath og Ozzy Osbourne á laugardag. Tónleikarnir, sem bera yfirskriftina Back to the Beginning fara fram á Villa Park í Birmingham og slegist hefur verið um miðana. En auk þeirra koma fram Metallica, Slayer, Pantera, Guns ´n Roses, Tool, Gojira, Anthrax, Mastodon og margar fleiri stórsveitir til að hylla hljómsveitina sem byrjaði þungarokkið fyrir 55 árum síðan.
„Ég er spenntur fyrir því að deila sviðinu með þessum topp tónlistarmönnum,“ sagði Lee.