Engar eignir fengust upp í lýstar kröfur í þrotabúi félagsins GBN-2024. Samkvæmt auglýsingu í Lögbirtingablaðinu voru lýstar kröfur 34.666.416 krónur, skiptum var lokið 23. apríl.
Eigandi GBN-2024 var Guðmundur Birkir Pálmason, betur þekktur sem Gummi kíró.
Eins og DV greindi frá þann 19. nóvember síðastliðinn var félagið úrskurðað gjaldþrota hjá Héraðsdómi Reykjaness, en það hét áður Kírópraktorastöð Reykjavíkur ehf.
Sjá einnig: Eldri kírópraktorstöð Gumma Kíró úrskurðuð gjaldþrota
„Það má segja að þetta hafi byrjað í COVID þar sem röð mistaka gerði það að verkum að það safnaðist upp skuldir hjá félaginu. Fyrirtæki fengu þann möguleika á að frysta greiðslur til skattsins eða staðgreiðslu vegna launagreiðslna sem við nýttum okkur á sínum tíma. Laun hjá fyrirtækinu voru há og skuldin hækkaði hratt, sagði Guðmundur í samtali við Smartland 27. nóvember 2024.
„Ég náði að lækka heildarskuldir heilmikið niður en síðasti hjallinn var skatturinn og á endanum náði ég ekki að semja við hann. Skatturinn er harður húsbóndi þegar kemur að rekstri en ég sem betur fer náði að greiða allt annað niður. Þetta er heilmikill lærdómur sem ég tek með mér og mun gera enn betur.“
Nú í mars stofnaði Gummi nýtt fyrirtæki, ásamt Kristjönu Björk Barðdal, umboðsskrifstofu fyrir áhrifavalda. Kristjana sagði frá fyrirtækinu í viðtali hjá Fókus:
Sjá einnig: Kristjana stekkur beint út í djúpu laugina og stofnar fyrirtæki með Gumma Kíró