Leigjandi sem leigði herbergi í íbúð á Funahöfða, segist hafa þurft frá að hverfa vegna veggjalúsar. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem húsnæðið kemst í fjölmiðla. Leigusalinn segir veggjalýsnar koma með einstaklingum og að hringt sé á meindýraeyði þegar mál koma upp.
Íslenskur karlmaður, sem kýs að koma ekki fram undir nafni, segist hafa leigt herbergi í Funahöfða í um mánuð en hafi loks þurft frá að hverfa vegna lúsarinnar.
Hann segir að rifur hafi verið í gólfdúknum og taulímband sett yfir. Ofninn virkaði ekki þegar hann kom í herbergið. Á öðrum degi þegar hann lagaði ofninn þá byrjaði hann að finna fyrir ófögnuðinum.
„Ég lagaði það og þegar hitinn kom þá byrjaði þetta að spretta upp úr límbandinu undan skápnum,“ segir maðurinn.
Um er að ræða húsnæði að Funahöfða 17a og 19 í Reykjavík. Þar eru á fimmta tug leiguherbergja á vegum fyrirtækisins Leiguherbergi ehf. Einnig var greint frá að félagið ræki leiguíbúðir að Dalshrauni og Smiðjuvegi. Samanlagt um 160 herbergi.
Húsnæðið og fyrirtækið var til umfjöllunar í fjölmiðlum, þar á meðal DV og sjónvarpsþættinum Brestir á Stöð 2, árið 2017. Það er vegna slæms aðbúnaðs leigjenda, sem voru að stærstum hluta farandverkamenn frá Austur Evrópu en einnig Íslendingar á hrakhólum.
Húsnæðið var á lista yfir óleyfishúsnæði og eftirlit lítið en hagnaður eigenda hins vegar mikill. Hafði starfsemin fengið að þrífast í um tvo áratugi og væri orðin venjuhelguð.
Var meðal annars rætt við pólskan leigjanda á Smiðjuvegi sem sagði veggjalýsnar það versta. Enda væri hann með bit víða um líkamann.
„Þetta byrjaði þegar ég flutti hingað inn. Þetta ansi óþægilegt en ég veit ekki almennilega hvernig ég á að bregðast við þessu,“ sagði hann.
Það sama virðist eiga við um húsnæðið við Funahöfða. Það er samkvæmt Íslendingnum sem leigði þar fyrir um þremur mánuðum síðan.
„Þetta var martröð. Það voru pöddur út um allt, morandi,“ segir hann. Hann hafi verið bitinn sem og fleiri leigjendur í húsinu.
„Það fara svona tvö þrjú rúm út í hverri viku og pokar með restinni af eigum fólks. Það tekur ekkert með sér af því að það eru komnar pöddur í það,“ segir hann. Húsvörðurinn leigi svo sendibíl til að fara með draslið á haugana því hann vilji ekki nota eigin bíl.
Tilkynnti hann málið til Heilbrigðiseftirlitsins sem kom í skoðunarferð. Hann segist hafa ákveðið að koma sér í burtu þrátt fyrir að eiga inni mánuð af leigu.
DV leitaði til Stefáns Kjærnedsted, framkvæmdastjóra Leiguherbergja ehf, til að spyrja hann út í málið. Að sögn hans bregst fyrirtækið við í hvert sinn sem veggjalýs finnast.
„Veggjalús er partur af umhverfinu og berst með einstaklingum. Í hvert einasta skipti sem þetta kemur upp er fenginn meindýraeyðir,“ segir Stefán.