Tónlistarmaðurinn og raunveruleikasjónvarpsstjarnan Bassi Maraj hefur verið ákærður fyrir líkamsárás á leigubílstjóra. Það er að hann hafi vafið snúru greiðsluposa um háls bílstjórans og bitið hann í hnakkann.
Mannlíf greinir frá þessu.
Samkvæmt ákærunni átti atvikið sér stað í Bryggjuhverfinu í Árbænum þann 11. febrúar árið 2023. Sagt er að Bassi hafi bitið í hnakka bílstjórans og vinstri öxl, kýlt hann með krepptum hnefa í ennið, tekið hann kverkataki og vafið snúrunni um háls hans.
Hlaut bílstjórinn tognun á hálsi, blæðingu undir slímhúð hægri auga, bitför og mar á hægri öxl og upphandlegg og yfirborðsáverka á háls og vinstri úlnlið.
„Komdu með símann minn eða ég fokking drep þig,“ er Bassi sagður hafa sagt og þar með haft í hótunum við bílstjórann.
Við öryggisleit á lögreglustöðinni í Hverfisgötu hafi lögregla fundið 0,08 grömm af amfetamíni á honum.
Er þess krafist að Bassi verði dæmdur til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar. Leigubílstjórinn gerir einkaréttarkröfu upp á tæpa 1,6 milljón króna.