Jón Þór Ágústsson, eigandi verslunarkeðjunnar King Kong, er sannarlega orðinn langþreyttur á innbrotum. Hann hefur ekki tölu á því hversu oft hann hefur orðið fyrir barðinu á slíku en hið nýjasta átti sér stað í nótt. Tveir menn brutust þá inn í verslun King Kong í Skeifunni og höfðu á brott með sér vörur sem slaga upp í tvær milljónir í söluverðmæti.
Jón Þór birti myndband af innbrotinu á Facebook-síðu sinni og bauð fundarlaun upp á um 300 þúsund krónur fyrir þá sem gætu gefið upplýsingar um hverjir voru þarna að verki.
Hann segist vera orðinn langþreyttur á því að glíma við slíkar uppákomur sem hafa verið ansi tíðar undanfarin ár. „Svona er bara Ísland í dag. Það er er ógeðslegt hvernig þetta er orðið,“ sagði Jón Þór.
King Kong er með sex sölustaði á höfuðborgarsvæðinu og sá sjöundi verður brátt opnaður. Segir Jón Þór að aðgengið að versluninni í Skeifunni, þar sem skrifstofur fyrirtækisins eru líka til húsa, sé þannig að hann hafi haldið að þjófar myndu veigra sér við að brjótast þar inn, áhættan væri einfaldlega of mikil. „Þeir þurftu að keyra upp ramp og verslunin er hérna á 2. hæð og fullt af verslunum í kring. Ég er einmitt að bíða eftir myndefni frá öðrum hérna í kring til þess að fá upplýsingar um bílinn sem þeir voru á,“ segir Jón Þór í samtali við DV.
Eins og áður segir hafa innbrot í verslanir hans verið tíð undanfarin ár en hann segir það þó fjarri því að þjófar séu sérstaklega að herja á hann. „Ég er bara sá eini sem er óhræddur að tjá mig um það og birta myndir af þrjótunum. Ég er hávær en aðrir verslunareigendur ekki,“ segir Jón Þór.
Hann varð fyrir fyrsta innbrotinu fyrir jólin 2023 og það hafi verið það sárasta. „Þá var ég nýbyrjaður og var ekki einu sinni tryggður. Það var mikið högg,“ segir hann en þjófarnir höfðu talsvert verðmæti á brott með sér og ekki tókst að hafa hendur í hári þeirra.
Að sögn Jón Þórs er allur gangur á því hversu vel skipulagðir innbrotsþjófarnir séu. Sumir eru augljóslega búnir að undirbúa sig vel en aðrir taka greinilega skyndiákvarðanir, líklega undir áhrifum. Þá lenti hann í því í febrúar á þessu ári að innbrotsþjófar á barnsaldri létu greipar sópa í einni verslun hans.
„Það er hálf nöturlegt að vera orðinn nánast vanur svona uppákomum. Ég kláraði til dæmis að borða morgunmatinn í morgun áður en ég brunaði niður í Skeifu til að skoða ástandið,“ segir Jón Þór. Von sé á iðnaðarmönnum síðar í dag til að laga aðkomuna og herða innbrotsvarnir enn frekar.
Innbrot í King Kong