Ekki hefur tekist að birta tveimur meintum innbrotsþjófum ákæru héraðssaksóknara og hefur þeim því verið birt fyrirkall í Lögbirtingablaðinu, lögum samkvæmt.
Mennirnir eru á fertugsaldri, þeir bera báðir erlend nöfn en hafa íslenska kennitölu. Þeir eru sakaðir um innbrot í tvö hús í Áslandshverfinu í Hafnarfirði á júlínóttu sumarið 2023.
Þeir brutu sér leið í gegnum útidyrahurð að öðru húsinu og stálu þaðan Hugo Boss úri, silfur Tissot úri, svartri Lenovo fartölvu, Apple iPad, Apple úri, Apple Macbook fartölvu og Sony þráðlausum heyrnartólum, að óþekktu verðmæti.
Þeir fór inn í hitt húsið í gegnum ólæstar dyr og stálu Lenovo spjaldtölvu, Apple iPad spjaldtölvu, hvítum Samsung farsíma, Canon myndavél og Sony heyrnartólum, að óþekktu verðmæti.
Annar þeirra er síðan sakaður um að hafa fyrr um sumarið stolið ýmsum matvörum, m.a. Mjúkís með vanillubragði, úr Krónunni í Flatahrauni.
Málið verður þingfest við Héraðsdóm Reykjaness þann 16. júní næstkomandi.