Mannfall rússneska hersins nær nánast nýjum hæðum daglega og það sama á við um tap hans á hertólum. Þetta veldur því að Rússarnir þurfa að leita nýrra leiða til að geta stundað árásarhernað sinn gegn Úkraínu.
Þeir eru því í vaxandi mæli farnir að nota samgöngutæki á borð við asna, kameldýr, mótorhjól, hlaupahjól og jafnvel skólabíla á vígvellinum.
The Moscow Times og CNN skýra frá þessu. Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) segir í daglegu stöðumati sínu um gang stríðsins að á síðasta ári hafi Rússar misst um 3.000 skriðdreka og allt að 9.000 brynvarin ökutæki.
Á samfélagsmiðlum á borð við X og Telegram er hægt að finna mörg dæmi um hin „nýju samgöngutæki“ Rússa. Rússneski hermaðurinn og herbloggarinn Kirill Fedorov segir til dæmis að varnarmálaráðuneytið hafi sent honum asna í febrúar því engin ökutæki hafi verið til.
The Mosvow Times segir að Rússar hafi notað hesta og jafnvel kameldýr til að fara ferða sinna á vígvellinum.
Forbes skýrði nýlega frá því að hópur rússneskra hermanna hefði stolið úkraínskum skólabíl, sem þeir notuðu til að komast ferða sinna allt þar til úkraínskur drónastjórnandi kom auga á þá og sprengdi skólabílinn í tætlur.