Þann 23. apríl siðastliðinn var kveðinn upp dómur yfir tveimur erlendum félögum, þeim Alexios Charavgias og Rafail Bazionis, fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.
Tvímenningarnir voru ákærðir fyrir að hafa flutt hingað til lands rétt tæp tvö kg af kókaíni, er þeir komu hingað með flugi frá Frankfurt. Efnin fundust í farangri Rafails, í fölskum botni í tösku hans.
Mennirnir voru sakaðir um samverknað og var Rafail talinn hafa flutt efnin fyrir óþekktan aðila en Alexios álitinn vera fylgdarmaður hans. Rafail játaði að hafa flutt efnin en neitaði samverknaði og sagði hann að Alexios hafi ekkert vitað um efnin. Alexios neitaði sök með öllu.
Alexios sagðist við yfirheyrslur ekki vita hvað hefði verið í töskunni en hann hefði samþykkt að flytja ótilgreinda innihaldið vegna blankheita sinna, en hann átti að fá á bilinu 1.000 til 3.000 evrur fyrir verkið.
Við skoðanir á farsímum tvímenninganna fannst mikið magn gagna sem sýna samskipti þeirra á milli en ennfremur samskipti við aðila sem virðast standa á bak við fíkniefnainnflutninginn.
Framburður beggja þótti að auki vera ótrúverðugur. Voru þeir báðir sakfelldir. Það var virt báðum til refsilækkunar að þeir virðist ekki hafa sakaferil að baki og að Rafail var burðardýr. Engu að síður fengu báðir þunga dóma. Í dómnum segir um hlutdeild beggja í brotinu:
„Ákærði Rafail er fæddur í […]. Ekki er vitað til þess að ákærði eigi fyrri sakaferil að baki. Hann játar að hafa flutt inn fíkniefnin, sem fundust í farangri hans, en neitar að hafa gert það í félagi við ákærða Alexios. Játning liggur því ekki fyrir. Dómurinn telur að ákærði Rafail hafi verið í hlutverki burðardýrs í umræddum innflutningi og að taka beri mið af því við ákvörðun refsingar hans. Þáttur hans var þó ómissandi liður í brotinu. Ákærði tók við efnunum í Frankfurt og flutti þau hingað til lands gegn greiðslu og hann vissi frá upphafi ferðarinnar í hvaða tilgangi hún var farin og hvert hlutverk hans var í framkvæmd brotsins þótt hann nyti fylgdar og leiðsagnar meðákærða Alexios við framkvæmdina.
Ákærði Alexios er fæddur í […]. Ekki er vitað til þess að ákærði eigi sakaferil. Hann átti í miklum samskiptum við skipuleggjanda innflutningsins í tengslum við ferðina
og hafði meðal annars milligöngu um að koma ferðaskilríkjum ákærða Rafail til skipuleggjanda innflutningsins og tók á móti brottfararspjöldum beggja vegna ferðarinnar. Þáttur hans í innflutningi efnanna var því einnig ómissandi. Ákærði fylgdi ákærða Rafail í ferðina, allt frá brottför í Grikklandi, og fylgdist með honum og allt að því fjarstýrði. Ákærði á sér engar málsbætur.“
Báðir voru dæmdir í tveggja ára og fjögurra mánaða fangelsi. Dóminn má lesa hér.