Læknir á fertugsaldri hefur verið dæmdur í Skotlandi eftir að upp komst að hann hafði komið fyrir myndavélum á klósetti Airbnb íbúðar sinnar. Sagðist hann vera með minnimáttarkennd vegna lítils getnaðarlims og vildi njósna um limastærð annarra manna.
Breska blaðið The Daily Mail greinir frá þessu.
Læknirinn, sem er 34 ára gamall, heitir Yu Young Um og var handtekinn í Glasgow eftir að upp komst um athæfi hans. Hafði hann komið fyrir myndavélum og tekið myndbönd af 24 manneskjum á þriggja ára tímabili.
Var hann ákærður og loks dæmdur fyrir 23 brot í dómstól í Glasgow í apríl. Í gær, fimmtudaginn 8. maí, var refsing hans ákveðin, það er 18 mánaða fangelsisdómur eins og segir í tilkynningu réttarins.
Um kom fyrir myndavélum í Airbnb íbúð sinni í Hyndland hverfinu í vesturhluta borgarinnar. Málið komst upp þegar gestur fann þær.
Gestinum fannst eitthvað bogið við það að einn loftfrískarinn beindist beint að klósettinu og annar að sturtunni. Við nánari athugun kom í ljós að myndavélarnar voru faldar innan í plastinu á loftfrískurunum. Lögregla kom á staðinn og fann þriðju myndavélina, sem var falin í reykskynjaranum.
Lögreglan handtók Um, gerði allar myndavélarnar upptækar sem og farsíma, fartölvu og harðan disk þar sem geymdar voru upptökur af mörgum gestum íbúðarinnar.
Þetta voru hins vegar ekki einu brot Um, sem starfaði sem í sjúkrahúsinu Dumfries and Galloway Royal Infirmary. Á vinnustaðnum hafði hann komið fyrir myndavélum og tekið upp myndbönd af samstarfsfólki sínu.
„Ju Young Um framkvæmdi þessar innrásir í einkalíf fólks af ásettu ráði og með fyrirhuguðum hætti. Hann misnotaði traust viðskiptavina sinna til þess að brjóta á friðhelgi þeirra til að fróa sínum kynórum,“ sagði Fraser Gibson, saksóknari í málinu
Þakkaði hann öllum sem unnu að því að koma Um bak við lás og slá til þess að annað fólk þyrfti ekki að lenda í honum.
„Við munum halda áfram að sækja til saka þá sem eru ábyrgir fyrir glæpum sem þessum þar sem við vinnum að því að tryggja öryggi fólks,“ sagði hann.
Elsta myndbandið sem Um tók var frá því í nóvember árið 2020 og það nýjasta frá ágústmánuði í fyrra. Alls tók hann myndir af 21 karlmanni og 9 konum.
Í málsvörn sinni sagði Um að hann hefði sem ungur maður greinst með ofvöxt í líkama. Það væri mögulega ástæðan fyrir því að hann væri með lítinn getnaðarlim. Hann hafi ekki leitað sér hjálpar heldur hafi tekið upp myndböndin til þess að bera sig saman við aðra menn.