

Áfengi er um þrefalt dýrara á Íslandi en í Evrópusambandinu, að meðaltali. Þetta og annað hefur valdið því að drykkja er um 25 prósent minni hér á landi en í Evrópusambandinu, en hins vegar er ofdrykkja á Íslandi meiri en í Evrópu.
Samkvæmt tölu evrópsku hagfræðastofnunarinnar, Eurostat, er áfengi hvergi dýrara í Evrópu en á Íslandi.
Fyrir áfengi sem kostar að meðaltali 100 evrur í Evrópusambandsríkjum, það er 14.755 krónur, borga Íslendingar 285 evrur, eða 42.051 krónur.
Innan sambandsins er áfengi dýrast í Finnlandi. Þar myndi þetta magn af áfengi kosta 207 evrur, eða 30.542 krónur. Ódýrast er áfengið má finna í Ítalíu og Þýskalandi, þar kostar það innan við 90 evrur.
Eins og kemur fram í matarmiðlinum Tasting Table er helsta ástæðan fyrir mismunandi verðlagi áfengis í álfunni opinber áfengisgjöld. Ísland hafi einhver hæstu áfengisgjöld í heiminum en áfengisgjald er greitt af áfengi sem er meira en 2,25 prósent af vínanda að rúmmáli.
Gjaldið hér er 137,4 krónur á hvern sentilítra af sterku áfengi (það er yfir 15 prósent vínanda) og 185,95 krónur á annað áfengi.
Há áfengisgjöld hafa verið notuð til þess að stýra neyslunni enda telur áfengisgjaldið mjög stóran hluta af heildarverðinu. Enda er það óumdeilt að áfengisneysla hefur slæm áhrif á heilsu og getur verið stórt lýðheilsulegt vandamál sem felur í sér mikinn samfélagslegan kostnað.
Verðlag er hins vegar ekki eina aðferðin sem hið opinbera notar til að stýra neyslunni. Auglýsingabann gildir á allt áfengi yfir 2,25 prósent vínanda.
Þá hefur Vínbúðin haft einkaleyfi til smásölu áfengis, þó að byrjað sé að molna undan einkaleyfinu með smásölu netverslana og brugghúsa.
Þessar hömlur og stýringar virðast hafa haft áhrif á neyslu Íslendinga en samkvæmt tölum frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) þá er neysla á áfengi 25 prósentum minni á Íslandi en að meðaltali í Evrópusambandsríkjunum. Áfengi er þar af leiðandi beinn þáttur í um 3 prósenta dauðsfalla á Íslandi en 6 prósent í Evrópu.
En þrátt fyrir að heildarneyslan sé minni þá er ofneysla áfengis um 5 prósent meiri hér en í Evrópu. En ofneysla er skilgreind sem sex drykkir eða fleiri á einum degi.