

Í dag skrifuðu félags- og húsnæðismálaráðherra og heilbrigðisráðherra undir samstarfssamning við landssamtökin Geðhjálp um stofnun skjólshúss fyrir fólk í tilfinningalegri krísu vegna andlegra áskorana. Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára þar sem ráðuneytin tvö leggja til samtals 122 m.kr. á móti 150-180 m.kr. framlagi Geðhjálpar. Stefnt er að því að opna skjólshúsið á fyrri hluta ársins 2026.
Svava Arnardóttir, formaður Geðhjálpar, lýsir yfir mikilli ánægju með framtakið og segir að þarna sé draumur að rætast. Segir hún þetta vera mikinn gleðidag.
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra segir: „Aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar. Með stofnun Skjólshúss verður stigið mikilvægt skref í að fjölga valkostum fyrir fólk í andlegri krísu en sambærilegt úrræði hefur ekki verið starfrækt hér á landi áður en Skjólshús er lágþröskuldaúrræði og byggir hugmyndafræði þess á sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga og jafningjastuðningi. Opnun Skjólshúss mun styrkja heildstæða geðþjónustu hér á landi með möguleika á að fólk geti fyrr, og á eigin forsendum, leitað sér aðstoðar.“
Inga Sæland, félags- og húsnæðisráðherra, bendir á að það sé engin heilsa án geðheilsu og mikilvægt sé að byggja upp úrræði sem grípa fólk fyrr. „Skjólshús verður öruggt og kærleiksríkt athvarf þar sem fólk getur fengið stuðning á sínum forsendum, með sjálfsákvörðunarrétt og mannúð að leiðarljósi.“
Í skjólshúsinu verður eintaklingum boðin skammtímadvöl í allt að tvær vikur, þeim að kostnaðarlausu. Starfsfólk og stjórn hússins eru fólk með persónulega reynslu af andlegum áskorunum og fer öll starfsemi hússins fram á jafningjagrundvelli.
Sjá nánar um málið á vef Stjórnarráðs.