fbpx
Mánudagur 29.desember 2025
Fréttir

Marinó svartsýnn um að bensínverð lækki til jafns við kílómetragjald – Segir olíufélögin hafa frítt spil

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 29. desember 2025 11:00

Marinó segir að neytendur ættu að tala með veskinu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samfélagsrýnirinn og ráðgjafinn Marinó G. Njálsson segir mikla svartsýni ríkja um að olíufélögin lækki verð sitt til samræmis við nýtt kílómetragjald. Olíufélögin hafi frítt spil til verðlagningar.

„Áhugavert að lesa færslur, þar sem fólk er að skrifa um kílómetragjaldið. Nákvæmlega ENGINN hefur minnstu trú á, að olíufélögin lækki eldsneytisverð til samræmis við niðurfellingu bensín- og olíugjalda,“ segir Marinó í færslu á samfélagsmiðlum.

Verðsamkeppni eins og einhyrningar

Lög um kílómetragjald voru nýlega samþykkt, en gjaldtakan á að taka við olíugjaldinu til þess að fjármagna vegakerfið og samgönguinnviði. Löggjöfin er umdeild en er af stjórnvöldum talin nauðsynleg til þess að mæta minnkandi olíugjaldi vegna orkuskipta í samgöngum.

Hvort að reikningsdæmið gangi upp neytendum í vil eða olíufélögunum er síðan önnur spurning. Marinó er svartsýnn fyrir hönd neytenda.

„Svo við höfum að alveg á hreinu, þá nemur niðurfelling bensíngjaldanna um 92 kr. plús virðisaukaskatts á upphæðina, þ.e. 92*1,24=114 kr. Hluti álagningar olíufélaganna er síðan vegna kostnaðar við innheimtu og umsýslugjaldanna og hugsanlega fjármagnskostnaðar vegna þeirra, þar sem almennt þarf að greiða slík gjöld við tollafgreiðslu,“ segir hann. „Bjartsýnasta fólk gerir ráð fyrir að olíufélögin haldi eftir 10-20 kr., en þeir svartsýnni sjá fyrir sér að bensín- og olíuverð lækki um í besta falli 50 kr. Þetta er hægt í landi, þar sem verðsamkeppni er álíka algeng og einhyrningar.“

Neytendur þurfi að tala með veskinu

Eins og flestir muna voru þrjú stóru olíufélögin, Olís, Skeljungur og Ker sem rak Essó sem varð síðan að N1, sektuð um milljarða króna vegna mikils verðsamráðs á árunum 1993 til 2001. Síðan þá hefur ríkt mikið vantraust í garð olíufélaga til að stunda raunverulega samkeppni á Íslandi. Marinó leggur til að neytendur setji hnefann í borðið.

„Svo það sé alveg á hreinu, þá geta olíufélögin gert það sem þeim sýnist,“ segir Marinó. „Þau gætu þess vegna hækkað bensínverð, þrátt fyrir niðurfellingu gjaldanna. Þau verða hins vegar dæmd af gjörðum sínum og vona ég að neytendur samþykki ekkert annað en að lækkun bensín- og olíugjalda verði skilað að fullu út í verðið að meðtöldum þeim virðisaukaskatti sem náði til gjaldanna. Best væri að neytendur hætti einfaldlega að versla við þau félög sem gera það ekki.“

Að lokum nefnir hann annað gjald sem flækir myndina.

„Fólk þarf þó að hafa í huga, að til að flækja málið og gera neytendum erfiðara að átta sig hve lækkunin á að vera mikil, þá verða kolefnisgjöld hækkuð um áramót. Hér hefði verið betra að lækka bensín- og oliugjöldin frá og með 1. janúar, en bíða með hækkun kolefnisgjaldanna til 1. mars eða jafnvel enn lengur. En til hvers að vera með skýrleika, þegar hægt er að flækja hlutina,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 dögum

Gleðileg jól kæru lesendur

Gleðileg jól kæru lesendur
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Þúsundir skólabarna heimsóttu kirkjur á aðventunni

Þúsundir skólabarna heimsóttu kirkjur á aðventunni
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Íslendingur í fangelsi í Kólumbíu grunaður um kynferðisbrot gegn unglingsstúlku

Íslendingur í fangelsi í Kólumbíu grunaður um kynferðisbrot gegn unglingsstúlku
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Maðurinn er fundinn

Maðurinn er fundinn