

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, gagnrýnir Jón Pétur Zimsen, þingmann Sjálfstæðisflokksins harkalega vegna ummæla hans um störf lögreglunnar. Ljóst sé að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki borgaralegur flokkur.
Jón Pétur gagnrýndi lögregluna fyrir að ráðast í aðgerðir gegn Smáríkinu og Nýju Vínbúðinni á öðrum degi jóla. Lokaði afhendingarstöðvum og lagði sektir á verslanirnar en óheimilt er að afhenda áfengi á helgidögum Þjóðkirkjunnar.
„Þetta er mögulega einhver yfirlýsing. Lögreglan er eins og hún er og ræður sér sjálf. Að það sé verið að senda skilaboð með einhverjum takti út í samfélagið í stað þess að skýra þessa lagalegu óvissu er ólíðandi,“ sagði Jón Pétur við mbl.is vegna málsins.
Í færslu á samfélagsmiðlum segir Sigurjón að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki borgaralegur flokkur.
„Það er vægast sagt ömurlegt að þingmaður skuli ráðast með þessum hætti að lögreglunni sem er að framfylgja landslögum,“ segir Sigurjón. „Þingmenn ættu miklu frekar að styðja við störf lögreglunnar í stað þess að vera með innihaldslitlar upphrópanir og gera aðsúg að þeim sem framfylgja lögum og reglum.“