

Kjartan Guðmundsson, 46 ára, er faðirinn sem lenti í alvarlegu bílslysi í Suður-Afríku miðvikudaginn 17. desember. Þrettán ára dóttir Kjartans og móðir hans létust í slysinu. Sjálfur liggur hann illa slasaður á sjúkrahúsi þar ytra. Bróðir Kjartans og tveir vinir hans dvelja þar hjá honum og hafa vinir Kjartans hafið söfnun honum til handa.
Sjá einnig: Faðirinn í Suður-Afríku – „Þetta er fyrst og fremst fjölskylduharmleikur“
„Kjartan er sannur vinur. Vinur sem hefur reynst mér hvað best og hefur alltaf verið fyrstur til að rétta fram hjálparhönd þegar ég hef þurft á henni að halda. Það á svo sannarlega við um marga sem þekkja Kjartan. En Kjartan er ekki bara góður vinur, hann er líka ótrúlega góður pabbi,“ segir í færslu vinar hans, Ómars Sigurðssonar.
„Í dag liggur hann í mjög alvarlegu ástandi á spítala í Suður-Afríku og berst fyrir lífi sínu eftir þetta hörmulega slys. Ljóst er að takist honum að ná sér, bíður hans löng og krefjandi endurhæfing. Hann er langt að heiman, í landi sem er svo fjarri okkur sem hér erum.
Sigurvaldi bróðir Kjartans, ásamt tveimur vinum hans, ferðuðust til Suður-Afríku um leið og fregnirnar bárust og eru þar í dag.
Fyrir Kjartan er löng og ströng vegferð fram undan. Vegferð sem snýr að endurhæfingu og bata, en einnig að gífurlegri sorg og sársauka. Vegferð sem ég óska engum að þurfa að ganga í gegnum.
Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að vera til staðar fyrir Kjartan og fjölskyldu hans.
Fyrir alla þá sem vilja leggja Kjartani, fjölskyldu hans og okkur lið, læt ég hér fylgja reikningsnúmer og kennitölu bróður hans, Sigurvalda.“
Reikningur er á nafni og kennitölu Sigurvalda, bróður Kjartans og við minnum á að margt smátt gerir eitt stórt:
Reikningur: 0123-15-238284
Kennitala: 260790-2939
Uppfært kl. 23:00:
Annar vinur Kjartans, sem ekki vildi að nafn hans væri getið í fréttinni, hafði samband við blaðamann DV símleiðis og vildi koma því skýrt á framfæri að um væri að ræða söfnun fyrir Kjartan, meðal annars kostnað vegna sjúkrahúsdvalar hans í Suður-Afríku og endurhæfingu, kostnað vegna jarðarfarar móður hans og dóttur, og áframhaldandi kostnað vegna meðferðar sonar hans í Suður-Afríku, sem Kjartan hefur staðið meginstrauminn af kostnaði vegna. Sagðist vinurinn hafa fengið ítrekaðar fyrirspurnir hvort fyrri söfnun sem miðlar fjölluðu um fyrir nokkrum dögum væri fyrir báða foreldra, en svo er ekki.
Einnig fóru bróðir og vinir Kjartans til hans með stuttum fyrirvara, með miklum kostnaði og vinnutapi, sem er þó ekki efst í huga þeirra að sögn vinarins. Segir hann að flug út geti kostað á bilinu 400-500 þúsund krónur og ekki á færi allra að vera til staðar fyrir Kjartan, þó margir séu viljugir.
Vinurinn vildi einnig koma því á framfæri að að mati ættingja og vina Kjartans hafi ræðismaður Íslands í Suður-Afríku, sem greint hefur verið frá í fréttum að væri fjölskyldunni innan handar, ekki staðið sig vel hvað upplýsingar og aðstoð varðar til fjölskyldu Kjartans.