fbpx
Fimmtudagur 25.desember 2025
Fréttir

Úrskurðir ársins I: Varasamur læknir, ólögleg aflífun og „gallaður“ hundur

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 25. desember 2025 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á þessu ári sem senn er á enda hefur DV sagt frá ýmsum úrskurðum, vegna stjórnsýslukæra, frá ráðuneytum og sjálfstæðum úrskurðarnefndum. Sum málin hafa verið mjög athyglisverð og vakið töluverð viðbrögð lesenda. Hér verða tíundaðir þeir úrskurðir sem þóttu standa upp úr bæði vegna málavaxta en ekki síður viðbragða lesenda. Upprifjuninni verður skipt í tvo hluta en sá seinni verður birtur næstkomandi laugardag, 27. desember.

Varasami læknirninn

Í nóvember greindi DV frá úrskurði heilbrigðisráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun embættis landlæknis sem svipti lækni starfsleyfi meðal annars á þeim grundvelli að hann hefði vanrækt skyldur sínar og lagt sjúklinga í hættu en fjöldi kvartana hefur borist embættinu í gegnum árin vegna læknisins. Var tilgreint í úrskurðinum meðal annars tilfelli þar sem læknirinn var á bakvakt en neitaði að mæta til vinnu til að sinna alvarlega veikum sjúklingi. Er tekið fram að í alvarlegustu tilfellunum hafi læknirinn lagt sjúklinga í hættu. Hafði hann áður verið sviptur starfsleyfi tímabundið en vanræksla hans hefur meðal annars verið rakin til geðrænna veikinda.

Læknir sviptur starfsleyfi – Sagður hafa lagt sjúklinga í hættu

Sveitarstjóri fór offari við aflífun

Í ágúst sagði DV frá máli tveggja hunda í Mýrdalshreppi en þeir voru aflífaðir fyrir tilstuðlan sveitarstjórans. Úrskurðarnefnd umhverfis- og og auðlindamála komst að þeirri niðurstöðu að sveitarstjórinn hefði brotið stjórnsýslulög með framgöngu sinni. Ásakanir um að hundarnir hefðu bitið manneskju væru ósannaðar og það hefði verið ótímabært og úr hófi fram að aflífa hundana á þessum tímapunkti.

Sveitarstjórinn fór offari þegar hann lét lóga tveimur hundum

Málið vakti mikil viðbrögð og í kjölfarið ræddi DV við eiganda hundanna sem tók aflífuninni skiljanlega afar illa og sagðist í kjölfar úrskurðar nefndarinnar ætla að leita réttar síns.

Hyggst leita réttar síns gagnvart sveitarstjóra Mýrdalshrepps – „Hundarnir svæfðir í fanginu á mér meðan ég er hágrátandi“

„Gallaður“ hundur

Umfjöllun DV í október um úrskurð kærunefndar vöru- og þjónustukaupa um skil á hundi vakti nokkurt umtal. Var niðurstaðan sú að kaupandi hundsins, sem borgaði um 400.000 krónur en sagði hundinn hafa reynst gallaðan, ætti að fá endurgreiðslu þar sem hundurinn hefði ekki verið húsvanur eins og seljendur hefðu fullyrt áður en kaupin gengu í gegn. Vildi kaupandinn einnig meina að gallinn hefði falist í að hundurinn hafi verið taugaveiklaður og mannýgur.

Keypti hund dýrum dómum en á að fá hann endurgreiddan – Reyndist vera „gallaður“

Skaðleg fæðing

Nú í desember greindi DV frá úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem komst að þeirri niðurstöðu að móðir hefði hlotið varanlegan miska og örorku vegna mistaka við fæðingu barns hennar á Landspítalanum. Lýsingar móðurinnar á fæðingunni þóttu mörgum lesendum vera sláandi en hún var illa farin eftir hana bæði á sál og líkama. Var talið ámælisvert að hún hefði vegna mikils kvíða vegna komandi fæðingar ekki fengið að hitta fæðingarlækni á meðan meðgöngunni stóð. Sagði konan að starfsfólk sem kom að fæðingunni hefði viðurkennt við hana eftir á að mistök hefðu verið gerð.

Móðir glímir við varanlegan skaða eftir mistök í fæðingu á Landspítalanum

Eðli parkets

Í byrjun febrúar sagði DV frá máli konu sem vakti nokkra athygli. Hún krafðist þess fyrir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa að hún fengi endurgreiðslu frá verktaka á þeim grundvelli að hann hefði ekki vandað nógu vel til verka þegar hún réð hann til að slípa og lakka parketið í íbúð hennar og laga rifur sem myndast hefðu í því. Vildi konan meðal annars meina að nýjar rifur hefðu myndast í parketinu fljótlega að verkinu loknu. Nefndin úrskurðaði konunni hins vegar í óhag meðal annars á þeim grundvelli að taka yrði mið af eðli parkets í málinu en þótt það segi ekki beint í úrskurðinum virðist ekki annað en að niðurstaðan sé sú að konan hafi ekki áttað sig á því hvert eðli parkets sé.

Sögð ekki hafa áttað sig á eðli parkets

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Þurfti að fara í hart eftir að húðflúrarinn neitaði að ljúka verkinu

Þurfti að fara í hart eftir að húðflúrarinn neitaði að ljúka verkinu
Fréttir
Í gær

Hin íslenska Katina er dáin 50 ára að aldri – Þekkt fyrir að ulla á áhorfendur

Hin íslenska Katina er dáin 50 ára að aldri – Þekkt fyrir að ulla á áhorfendur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Faðirinn í Suður-Afríku – „Þetta er fyrst og fremst fjölskylduharmleikur“

Faðirinn í Suður-Afríku – „Þetta er fyrst og fremst fjölskylduharmleikur“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vonskuveður um jólin – Þetta þurfa landsmenn að vita

Vonskuveður um jólin – Þetta þurfa landsmenn að vita
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sneru vörn í sókn gegn leigubílstjóranum sem ofrukkaði þær og skildi svo eftir í myrkrinu á Bláfjallavegi

Sneru vörn í sókn gegn leigubílstjóranum sem ofrukkaði þær og skildi svo eftir í myrkrinu á Bláfjallavegi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stúlka sýknuð af ákæru um að hafa stungið pilt tvisvar í bakið – Var aðeins 15 ára þegar meint brot átti sér stað

Stúlka sýknuð af ákæru um að hafa stungið pilt tvisvar í bakið – Var aðeins 15 ára þegar meint brot átti sér stað