fbpx
Fimmtudagur 25.desember 2025
Fréttir

Ungmenni dæmd fyrir frelsissviptingu og „sérstaklega hættulega, hrottalega og ófyrirleitna“ hópárás gegn unglingsdreng í Heiðmörk

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 25. desember 2025 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögreglu barst í apríl á síðasta ári símtal þar sem tilkynnt var að illa klæddur, skólaus og grátandi unglingsstrákur hefði sést á göngu um Heiðmerkurvegi. Drengurinn hafði verið fluttur nauðugur upp í Heiðmörk þar sem hann var beittur hrottalegu ofbeldi, hann rændur og honum hótað. Gerendur voru fjórir og voru einnig á unglingsaldri, tveir þeirra voru 17 ára en hinir tveir aðeins 15 ára gamlir. Allir fjórir hafa nú verið dæmdir fyrir atvikið.

Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 18. desember og þar kemur fram að eftir að lögreglu barst ábending um málið hafi verið leitað árangurslaust að drengnum en svo barst símtal frá slysadeild Landspítalans. Þar var drengurinn staddur ásamt föður sínum og var hann með fjórar brotnar tennur, heilahristing og töluverða yfirborðsáverka.

Hrottalegt einelti eftir falskar ásakanir

Á daginn kom að drengurinn hafði verið í heimsókn hjá vinkonu sinni í Grafarvogi þegar árásaraðilarnir knúðu dyra og spurðu um hann. Þeir drógu hann svo frá húsinu, þvinguðu upp í bifreið og tóku af honum farsíma og air pods-heyrnatól. Síðan óku þeir um í dágóða stund en ákváðu svo að fara með drenginn upp í Heiðmörk til að ganga í skrokk á honum. Upp í Heiðmörk veittust þeir með ofbeldi að drengnum sem féll í jörðina. Létu árásaraðilar svo höggin og spörkin dynja á honum. Einn þeirra gaf honum rafstuð með rafmagnsvopni og annar otaði að drengnum hníf og hótaði því að drepa hann og fjölskyldu hans ef hann segði frá. Svo var drengurinn skilinn eftir ber að ofan og skólaus við Heiðmerkurveg.

Drengurinn þekkti árásaraðila sína ekki sjálfur, en þekkti til þeirra. Taldi fjölskylda drengsins að árásin tengdist hrottalegu einelti sem drengurinn hafði verið beittur síðustu tvö árin fyrir árásina eftir að hann var ranglega sakaður um kynferðisbrot. Hefði drengurinn áður orðið fyrir ofbeldi vegna þeirra ásakana og bæði honum og fjölskyldu hans hótað.

Fjölskyldan hafði þó haldið að eineltið væri búið. Drengurinn hafði meðal annars skipt um skóla og hefði loksins verið farið að líða betur þegar atvikið í Heiðmörk átti sér stað eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Árásaraðilarnir gáfu skýrslu hjá lögreglu og tóku ekki fyrir það að hafa farið með drenginn upp í Heiðmörk. Sögðust þeir hafa fengið veður af ásökunum í garð drengsins og ákveðið að kenna honum lexíu. Voru þeir svo ákærðir fyrir frelsissviptingu, sérstaklega hættulega líkamsárás, hótanir og rán.

Aðeins einn þeirra játaði sök í málinu, en hinir þrír gerðu lítið úr sínum hlut, héldu fram að drengurinn hefði komið sjálfviljugur upp í bílinn og að árásin hefði ekki verið sérstaklega hættuleg.

Hlaut að verða ljóst að afleiðingar atlögunnar gætu orðið alvarlegar

Dómari tók fram að það væri ágreiningslaust að fjórmenningarnir hefðu ekið með drenginn upp í Heiðmörk þar sem gengið var í skrokk á honum. Öllum árásaraðilum hafi verið ljóst frá upphafi hvað stæði til og væri erfitt að halda því fram að drengurinn hefði komið sjálfviljugir með þeim þar sem hann var á bolnum og skólaus. Fjórmenningarnir vissu að þeir væru á leið upp í Heiðmörk til að geta þar beitt drenginn ofbeldi á afskekktum stað án vitna. Ekki væri hægt að aðgreina fyllilega hlut hvers og eins í árásinni sem var skipulögð og allir fjórir tóku virkan þátt í.

Dómari tók svo fram:

„Var um að ræða sérstaklega hættulega, hrottalega og ófyrirleitna líkamsárás ákærðu gegn brotaþola. Veittu ákærðu honum rafstuð, kýldu hann og spörkuðu ítrekað í hann liggjandi, m.a. í höfuð. Hlýtur slík atlaga ákærðu, sem voru fjórir talsins, gegn liggjandi brotaþola með höggum og spörkum í höfuð og búk að teljast sérstaklega hættuleg, enda í raun tilviljun hversu alvarlegir áverkar brotaþola urðu. Þá verður það ekki talið ákærðu til málsbóta, hvað þetta varðar, að brotaþoli hafi náð að hnipra sig saman og þannig mögulega náð að koma í veg fyrir að áverkar yrðu alvarlegri en raun bar vitni. Hlaut ákærðu öllum að vera ljóst að afleiðingar atlögu þeirra að brotaþola gætu orðið alvarlegar.“

Hins vegar tók dómarinn fram að aðeins einn þeirra væri sekur um hótanir gegn drengnum, en það var sá sem otaði hníf að drengnum til að sýna honum hvar hann mætti reikna með að verða stunginn ef hann segði einhverjum frá árásinni.

Mun aldrei komast yfir áfallið

Dómari tók tillit til þess að ákærðu voru ungir að aldri þegar ofbeldið átti sér stað og þrír þeirra höfðu ekki áður gerst sekir um refsiverð brot. Aðeins einn þeirra hafði áður verið dæmdur til skilorðsbundinnar refsingar.

Niðurstaðan var sú að einn var dæmdur í átta mánaða fangelsi, tveir í sjö mánaða og einn í fjögurra mánaða. Allar refsingarnar voru skilorðsbundnar til tveggja ára.

Ákærðu var eins gert að greiða drengnum 1,2 milljónir í miskabætur en sálfræðingur bar vitni og sagði að þó drengurinn hefði náð að vinna úr áfallinu muni hann aldrei komast fyllilega yfir það og muni það fylgja honum alla tíð. Hefur hann meðal annars átt erfitt með að fara einn út úr húsi, ekki getað stundað nám og glímt við kvíðaröskun, félagskvíða og áfallastreituröskun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Færa menntunarsjóði Mæðrastyrksnefndar 2 milljónir króna

Færa menntunarsjóði Mæðrastyrksnefndar 2 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þurfti að fara í hart eftir að húðflúrarinn neitaði að ljúka verkinu

Þurfti að fara í hart eftir að húðflúrarinn neitaði að ljúka verkinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svanhildur Sif heiðruð af Kópavogsbæ – „Börnin eiga svo stóran hlut í hjarta mínu“

Svanhildur Sif heiðruð af Kópavogsbæ – „Börnin eiga svo stóran hlut í hjarta mínu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fyrirhugað að Gufunesmálið fari fyrir Landsrétt í febrúar

Fyrirhugað að Gufunesmálið fari fyrir Landsrétt í febrúar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gunnar sakar saksóknara um meiðyrði og hótar málsókn – „Háttsemi þín verður tilkynnt yfirmönnum þínum hjá LRH“

Gunnar sakar saksóknara um meiðyrði og hótar málsókn – „Háttsemi þín verður tilkynnt yfirmönnum þínum hjá LRH“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Faðirinn í Suður-Afríku – „Þetta er fyrst og fremst fjölskylduharmleikur“

Faðirinn í Suður-Afríku – „Þetta er fyrst og fremst fjölskylduharmleikur“