

Hópur aktivista hefur náð að stela megninu af þeirri tónlist sem er til á streymisveitunni Spotify. Hópurinn segist ætla að gefa efnið frítt.
Eins og greint er frá hjá breska blaðinu The Guardian kallar hópurinn sig Anna´s Archive. Hefur hann náð að stela, eða „skrapa“, 86 milljónum tónlistarskráa af vef sænska streymisrisans. Að sögn hópsins stendur til að setja á fót síðu þar sem hægt verður að sækja skrárnar frítt.
Á vef Spotify eru um 100 milljónir tónlistarskráa en þær skrár sem Anna´s Archive stal nema 99,6 prósent af allri hlustun. Sem sagt aðeins algert jaðarefni var skilið eftir.
Að sögn sérfræðinga þá mun þessi aðgerð einkum gagnast gervigreindarfyrirtækjum sem geta „matað“ gervigreindina með þessum gögnum.
Spotify er langstærsta tónlistarstreymisveitan og hefur um 700 milljónir notenda. Að sögn fyrirtækisins hefur náðst að bera kennsl á og stöðva þá reikninga sem voru notaðir við þetta ódæði.
„Rannsóknir á óheimiliðum aðgangi leiddi í ljós að þriðji aðili hafði skrapað gögn og notað ólöglegar aðferðir til þess að komast hjá stafrænni stjórnun (DRM) og fá aðgang að sumum hljóðskrám kerfisins,“ segir í yfirlýsingu Spotify. Einnig að hópurinn hafi ekki náð öllu efni vefsins.
Anna´s Archive eru hins vegar sáttir við það sem þeir náðu. „Spotify er vitaskuld ekki með alla tónlist í heiminum, en þetta er frábær byrjun,“ segir hópurinn.