fbpx
Þriðjudagur 23.desember 2025
Fréttir

Sambýlisfólk í góðri trú handtekið við komuna heim frá Alicante vegna mistaka Lyfjastofnunar

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 23. desember 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sambýlisfólk hefur verið sýknað af ákærum um tolla-, lyfja- og fíkniefnalagabrot, enda þótti dómara ljóst að þau hafi flutt mikið magn af lyfseðilskyldum lyfjum til landsins í góðri trú eftir að Lyfjastofnun birti beinlínis rangar upplýsingar á vef sínum. Þetta kemur fram í dómum Héraðsdóms Vesturlands í dag.

Reglugerðinni breytt

Sambýlisfólkið kom til Íslands frá Alicante árið 2023 og voru þau þá stöðvuð af tollvörðum. Við skoðun á farangri þeirra fannst töluvert magn af lyfseðilskyldum ávanabindandi lyfjum. Sambýlisfólkið framvísaði handskrifuðum lyfseðlum fyrir lyfjunum, útgefnum af spænskum lækni. Heimilt var samkvæmt gildandi reglugerð að taka með sér vikuskammt af lyfjunum í samræmi við skilgreinda dagsþröf. Tollverðir haldlögðu önnur lyf sem voru talin vera umfram heimildir.

Í tilviki sambýlismannsins voru lyf umfram heimildir eftirfarandi: 540 stk. af lyfinu Rivotril, 60 stk. af Medikinat, 30 stk. af Zolpidem, 14 stk. af Stilnox, 355 stk. af Alprazolem, 240 stk. af Zolpidem og 30 stk. af Clonazepam.

Í tilviki sambýliskonunnar var um að ræða: 20 stk. af Clonazepam, 30 stk. af Medikinat, 14 stk. af Stilnox, 311 stk. af Alprazolem, 210 stk. af Zolpidem Stada og 60 stk. af Zolpidem Normann.

Ákærðu greindu frá því að þau hefðu áður lent í leiðindum vegna flutnings lyfja til landsins svo að þessu sinni hafi þau hringt í Lyfjastofnun til að fá upplýsingar um hvað þau mættu taka mikið með sér til landsins og eins fóru þau vel yfir upplýsingar sem var hægt að finna á vef Lyfjastofnunar. Þegar þau komu til Íslands sögðu tollverðir þeim þó að lögunum hefði verið breytt og sýndu sambýlisfólkinu útprentað blað með reglugerðinni undirritaðri af ráðherra. Þessa reglugerð var ekki að finna á heimasíðunni þegar þau lögðu af stað til Íslands.

Öll lyfin voru til einkaneyslu. Sambýlismaðurinn glímir við flogaveiki og bæði hann og sambýliskonan notuðust við ADHD-lyf, svefnlyf og kvíðalyf. Þau voru búsett á Spáni og notuðu lyfin daglega. Eins voru þau með gögn frá lækninum sínum á Spáni, lyfseðla og ferðaseðil frá lækninum um hvað þau mættu taka með sér. Lyfin keyptu þau í apóteki á Spáni. Þau voru ekkert að fela lyfin og hefðu farið beint að rauðu hliði á flugstöðinni og framvísað lyfjunum.

Byggði sambýlisfólkið meðal annars á því að á stjórnvöldum hvíli sú skylda að kynna fyrirhugaða stjórnsýsluframkvæmd með nægilegum fyrirvara þannig að þeir sem breytingin varðar geti gert viðeigandi ráðstafanir, það hafi ekki verið gert í þessu tilviki og ákærðu því í góðri trú þegar þau komu til landsins.

Óeiginleg lögvilla

Lögreglustjórinn á Vesturlandi felldi rannsókn málsins niður í júlí 2024 þar sem það þótti ekki líklegt til sakfellis. Lögreglustjórinn útskýrði að sambýlisfólkið hefði verið eindregið í framburði sínum frá handtöku um að þeim hafi verið heimilt að taka lyfin í þessu magni með sér. Ákvörðunin var kærð til ríkissaksóknara sem gerði lögreglustjóra að höfða sakamál á hendur sambýlisfólkinu, jafnvel þó að þá væri fyrirliggjandi að upplýsingar á vefsíðu Lyfjastofnunar hafi vissulega verið misvísandi.

Dómari tók fram að ekki væri hægt að fallast á að upplýsingar hefðu verið misvísandi. Þær hefðu beinlínis verið rangar, bæði fyrir og einnig talsvert eftir meint brot sambýlisfólksins. Sambýlisfólkið hefði reglulega ferðast til landsins frá Spáni frá árinu 2021 með sambærilegt magn af lyfjum og ætíð verið stöðvuð en að lokinni athugun hafi haldlögðum lyfjum verið skilað án eftirmála. Þeim hefði verið með öllu ókunnugt um að reglugerð hefði verið breytt. Þau voru því í góðri trú.

Dómari tók svo eftirfarandi fram:

„Almennt leysir lögvilla geranda ekki undan refsiábyrgð en getur vissulega haft áhrif við ákvörðun viðurlaga við broti. Er þannig gengið út frá því að almennir borgarar skuli þekkja gildandi lög og reglur og það tjói ekki að bera því við eftir refsivert brot að viðkomandi hafi ekki vitað að háttsemi hans væri honum óheimil eða hann misskilið eða mistúlkað reglu. Þó er gengið út frá því að lögum og reglum sem banna tiltekna háttsemi verði ekki beitt sem refsiheimild nema birting þeirra hafi átt sér stað með tíðkanlegum og lögmæltum hætti. Svokölluð óeiginleg lögvilla getur líkt og villa um staðreyndir hins vegar haft áhrif á refsinæmi verknaðar og leitt til refsileysis.“

Þessi misskilningur sambýlisfólksins væri því afsakanlegur þar sem þau höfðu áður mátt flytja sama magn lyfja til landsins og eins gátu þau ekki séð annað en að þetta væri enn heimilt á opinberri vefsíðu Lyfjastofnunar. Þar með hafi enginn ásetningur verið til staðar og ekki eiginlegt gáleysi heldur.

Þau voru því sýknuð.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Maðurinn er fundinn
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Guðrúnu líst ekki á blikuna: „Íslensk mannanafnahefð hefur látið mikið á sjá“

Guðrúnu líst ekki á blikuna: „Íslensk mannanafnahefð hefur látið mikið á sjá“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Arnaldur pikkfastur á toppnum hjá Nettó

Arnaldur pikkfastur á toppnum hjá Nettó
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Faðirinn í Suður-Afríku – „Þetta er fyrst og fremst fjölskylduharmleikur“

Faðirinn í Suður-Afríku – „Þetta er fyrst og fremst fjölskylduharmleikur“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Vonskuveður um jólin – Þetta þurfa landsmenn að vita

Vonskuveður um jólin – Þetta þurfa landsmenn að vita
Fréttir
Í gær

Fær að bera barnsmóður sína út eftir allt saman

Fær að bera barnsmóður sína út eftir allt saman
Fréttir
Í gær

Baldvin komst við og rödd hans brast í viðtali við Bylgjuna – „Þetta hefur hreinlega farið með hann“

Baldvin komst við og rödd hans brast í viðtali við Bylgjuna – „Þetta hefur hreinlega farið með hann“