fbpx
Þriðjudagur 23.desember 2025
Fréttir

Fær að bera barnsmóður sína út eftir allt saman

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 22. desember 2025 16:00

Mynd: DV/Maggi gnúsari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur hefur snúið við úrskurði Héraðsdóms Reykjaness og fallist á kröfu fyrirtækis um útburð konu úr fasteign í eigu þess. Eigandi fyrirtækisins er hins vegar maður sem þekkir vel til konunnar en þau eru fyrrum par og eiga eitt barn saman.

Forsaga málsins er nokkuð löng. Maðurinn og konan eru erlendir ríkisborgarar. Þau hófu samband sitt árið 2016 en ekki liggur fyrir hvenær upp úr því slitnaði. Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að fyrirtækið hafi verið stofnað sérstaklega til að kaupa fasteign hér á landi en um er að ræða einbýlishús sem konan og barnið fluttu inn í árið 2021 en þau fluttu fyrst til landsins 2020. Ljóst er að maðurinn er mjög vel stæður fjárhagslega en fyrirtækið er í eigu félags sem er í eigu sjóðs í eigu fjölskyldu mannsins, en hann mun vera sá sem nýtur eigna sjóðsins og getur ráðstafað þeim.

Maðurinn virðist ekki hafa haft fasta búsetu hjá barnsmóður sinni og barni en dvalist þar við og við þar til upp úr sambandinu slitnaði. Hann greiddi fyrir framfærslu konunnar og barnsins og umrætt fyrirtæki greiddi allan kostnað vegna hússins en konan greiddi aldrei neina leigu fyrir afnot sín af því.

Konan og barnið fluttu til annars lands haustið 2024 þar sem barnið átti að ganga í skóla en sneru aftur til Íslands og í húsið í febrúar á þessu ári eftir að maðurinn hafði tilkynnt að hann myndi ekki lengur standa straum af framfærslu konunnar og myndi aðeins greiða fyrir útgjöld vegna barnsins gegn framvísun reikninga. Krafðist hans þess jafnframt að konan yfirgæfi einbýlishúsið svo hann gæti nýtt það sjálfur og vildi meina að dvöl hennar þar væri ólögmæt.

Leigusamningur

Héraðsdómur féllst ekki á kröfu um útburð ekki síst á grundvelli þess að samkvæmt gögnum málsins lægi það ekki fyrir, hvaða skuldbindingu fyrirtækið kynni að hafa tekið á sig gagnvart konunni hvað fasteignina varðaði, og þar með hvort og þá hvaða rétt hún kynni að eiga til að dvelja í henni. Fyrirtækið og þar með eigandi þess, maðurinn, sagði engan samning til staðar um afnot konunnar af húsinu og því hefði hún enga heimild til að vera þar.

Í úrskurði Landsréttar segir að fyrir liggi drög að leigusamningi dagsett 1. janúar 2023. Þar sem gert sé ráð fyrir að konan taki fasteignina á leigu og greiði mánaðarlegt leigugjald. Samningsdrögin hafi hins vegar aldrei verið undirrituð. Afnot konunnar af húsinu hafi því ekki grundvallast á skriflegum samningi. Þá hafi konan ekki greitt leigu eða annan kostnað vegna afnota sinna af húsinu.

Landsréttur segir kröfu konunnar um að fá að vera áfram í húsinu byggjast ekki á því að um húsaleigu sé að ræða eða önnur tímabundin afnot, heldur áralangt samkomulag milli hennar og mannsins um að hann, í krafti auðæfa sinna, sjái barni þeirra fyrir húsnæði og annarri framfærslu. Hún segist aldrei hafa dvalið í óleyfi í fasteigninni og vísi því til stuðnings meðal annars til samnings aðila, sem undirritaður hafi verið í janúar 2023.

Andlát

Í niðurstöðu réttarins segir hins vegar að konan beri sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu sinni að maðurinn hafi, þannig að skuldbindandi sé fyrir fyrirtækið, lofað því að hún mætti búa í húsinu endurgjaldslaust um ótilgreindan tíma. Segir rétturinn að í málinu virðist óumdeilt að fyrirtækið hafi með fyrrgreindum samningi í janúar 2023 skuldbundið sig til þess að leigja konunni húsið við andlát mannsins til æviloka hennar.

Ekki komi fram í samningnum að leigan eigi að vera endurgjaldslaus og engin fyrirmæli séu um að konan hafi afnot af húsinu fyrir andlát mannsins. Þá hafi konan ekki upplýst hvaða sönnunargagna hún telji rétt að afla til þess að leiða þetta í ljós og hvernig lög um aðför standi í vegi fyrir því. Einnig verði lagt til grundvallar, að konan og maðurinn séu ekki og hafi ekki verið í hjúskap og því komi ákvæði hjúskaparlaga ekki til skoðunar í málinu.

Konan hafi því ekki sýnt fram á að hún njóti slíkra afnota af húsinu að komið geti í veg fyrir að krafa um útburð nái fram að ganga.

Konan verður því borin út en hvort barnið muni búa í húsinu með föður sínum eða fylgi móður sinni út kemur ekki fram í úrskurði Landsréttar.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

„Ekkert er sárara í veröldinni en að missa barn og það getur enginn skilið nema að upplifa það“

„Ekkert er sárara í veröldinni en að missa barn og það getur enginn skilið nema að upplifa það“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Vill að Ásthildur Lóa verði aftur ráðherra – „Þarna var um að ræða svívirðilega aðför“

Vill að Ásthildur Lóa verði aftur ráðherra – „Þarna var um að ræða svívirðilega aðför“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Starfsmaður Útlendingastofnunar stærði sig af því að brjóta gegn þagnarskyldu – „Not all heroes wear capes“

Starfsmaður Útlendingastofnunar stærði sig af því að brjóta gegn þagnarskyldu – „Not all heroes wear capes“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stefnir í leiðindaveður á stórum hluta landsins á aðfangadagskvöld

Stefnir í leiðindaveður á stórum hluta landsins á aðfangadagskvöld