fbpx
Föstudagur 19.desember 2025
Fréttir

Verðkönnun á jólabókum: Þarna finnurðu oftast lægsta verðið

Ritstjórn DV
Föstudaginn 19. desember 2025 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á jólabókum þann 18. desember í 6 verslunum: Bónus, Nettó, Hagkaup, Forlaginu, Bóksölu Stúdenta og Eymundsson en alls var verð kannað á 496 bókatitlum. Vöruúrval er mismunandi milli verslana, en fæstir bókatitlar fundust í Bónus, alls 170, og flestir í Eymundsson, alls 479.

Í tilkynningu sem ASÍ sendi frá sér vegna könnunarinnar kemur fram að af þeim bókatitlum sem voru til í öllum verslunum var lægsta verðið oftast að finna í Bónus. Hæsta verðið var oftast að finna í Forlaginu. Ef lágvöruverslanirnar Bónus og Nettó eru undanskildar, var lægsta verðið oftast að finna í Bóksölu Stúdenta.

Í tilkynningu ASÍ segir að halda megi fram að verðstríð sé í gangi á milli Nettó og Bónus, þar sem litlu munar á verði sem hefur farið lækkandi frá því verðlagseftirlit skoðaði verð fyrr í mánuðinum. Afslættir í Eymundsson hafa verið tíðir í aðdraganda jóla og því lítið mark takandi á upphaflegu listaverði.

„Algengt er að verðmunur hlaupi á bilinu 500-1500 krónum á bækurnar og því getur verið gott fyrir neytendur að gera verðsamanburð. Samanburðinn má sjá í heild sinni hér. Vert er að benda neytendum á að hægt er að bera saman nýjustu verð á Verdlagseftirlit.is eða með samanburði í Nappinu,“ segir ASÍ.

 

Bónus oftast ódýrust en úrvalið mest hjá bóksölum

Í tilkynningu ASÍ kemur fram að af þeim 76 bókatitlum, sem fundust í öllum sex verslunum, voru 71 ódýrastir í Bónus (93%), fjórir í Nettó og einn í Bóksölu stúdenta. Forlagið var dýrast í helmingi tilfella (38 titlar), en Hagkaup fylgir þar fast á hæla (29 titlar – 38%).

„Ef eingöngu er litið úrvals í Bóksölu stúdenta, Eymundsson, Forlaginu og Hagkaup voru 302 bókatitlar fáanlegir í verslununum fjórum. Af þeim var Bóksala stúdenta með ódýrasta verðið í 128 tilfellum (42%) og Hagkaup í 80 (27%). Dýrustu titlarnir fundust í rúmlega helmingi tilfella í Hagkaupum (165 titlar – 55%), en næst oftast hjá Forlaginu (81 titill – 27%).“

Allt að þriðjungsmunur á metsölubókum

Bent er á að Kvöldsónatan eftir Ólaf Jóhann Ólafsson sé sem stendur efst á metsölulista Eymundsson. Bókina mátti finna frá 5.947 kr. upp í 7.890 kr. Ódýrust var hún í Bónus og kostaði einungis krónu meira í Nettó. Í Hagkaup fékkst hún á 6.599 kr. en meðal bóksala var hún ódýrust hjá Eymundsson. Hæsta verðið var í Forlaginu, 7.890 kr. og munaði því tæpum tvö þúsund krónum á hæsta og lægsta verði, eða nærri þriðjungi. Verð á völdum bókum af metsölulistum má sjá hér.

Svipaður verðmunur er á hæsta og lægsta verði þegar borið er saman verð á Skólastjóranum eftir Ævar Örn Benediktsson, þar sem um 1.900 kr. munaði á hæsta og lægsta verði. Sem fyrr var ódýrasta verðið að finna í Bónus ( 4.603 kr.) en bókin var dýrust í Hagkaupum (6.499 kr.).

Verðstríð á bókum hjá Bónus og Nettó

Í tilkynningu ASÍ er sem fyrr segir bent á að kapp hafi verið á milli Nettó og Bónus að hafa lægsta verðið á sínum jólabókum, þar sem Bónus hefur haldið örlitlu forskoti.

„Þegar skoðaðir eru bókatitlar, sem fást í báðum verslunum, er Bónus ódýrast í 121 af 126 titlum. Verðmunur hvers titils er að jafnaði innan við 1,5%. Til að setja það í samhengi myndi sá sem kaupir alla sameiginlegu bókatitlana spara 7.227 krónur milli Bónus og Nettó. Það gerir 1,38% heildarmismun á milli verslana.“

Þá kemur fram að á milli 3. og 18. desember hafi verð á rúmlega þremur fjórðu bóka lækkað í Bónus, ein bók hækkaði í verði, en tæpur fjórðungur var á óbreyttu verði. Alls var verðþróun 156 bóka skoðuð. Bækurnar sem lækkuðu í verði lækkuðu að meðaltali um 44 krónur, eða um þrjár krónur á dag.

ASÍ segir að í Nettó hafi 58% bóka lækkað í verði á sama tímabili, en 39% voru á óbreyttu verði. Fimm bækur hækkuðu í verði, en alls voru 203 bækur til skoðunar. Bækurnar sem lækkuðu í verði lækkuðu um að meðaltali 83 krónur, eða um fimm og hálfa krónu á dag.

Eymundsson með tíða afslætti

ASÍ bendir svo á að í október, nóvember og desember hafi afslættir í Eymundsson verið tíðir. Nefndir eru Tax Free-dagar í nóvemberbyrjun, 20% afslátt af öllum vörum í Kringlunni 4. nóvember, „11.11“-afslætti 7.-11. nóvember, svarta daga 25.-30. nóvember, mánudags-nettilboð 1. desember, aftur Tax Free dagar 4.-8. desember, 20% afsláttur af matreiðslubókum 10.-11. desember og enn einir Tax Free dagarnir 17.-19. desember. Fleiri afsláttardagar voru á öðrum vörum en bókum þessu til viðbótar.

„Þegar afsláttardagar eru svo tíðir – og fleiri verðlækkanir á hinum og þessum vörum inn á milli – getur gerst að bók er nær aldrei á listaverðinu sem afsláttarverðið miðar við.
Til dæmis má taka Huldukonuna eftir Fríðu Ísberg. Samkvæmt athugunum verðlagseftirlitsins á verði bókarinnar, sem voru 39 talsins frá 7. nóvember til 18. desember, var bókin aðeins seld á listaverðinu 8.699kr fyrsta daginn, þann 7. nóvember. Nú er hún auglýst á 20% afslætti miðað við það verð, og hefur raunar verið undir listaverði í öllum mælingum verðlagseftirlitsins frá 8. nóvember. Verð bókarinnar Piparmeyjar eftir Sigríði K. Þorgrímsdóttur var athugað 55 sinnum frá 23. október til 18. desember. Listaverðið hefur aðeins mælst tíu sinnum, en lægri verð 45 sinnum.

ASÍ tekur að lokum fram að söguleg verð hjá Eymundsson hafi verið könnuð með uppflettingu í leitarvél fyrirtækisins. Ekki sé útilokað að misræmi sé á milli leitarvélarinnar og verðs út úr búð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Amnesty lýsir yfir áhyggjum af máli Anítu sem hefur setið gæsluvarðhaldi síðan í byrjun september

Amnesty lýsir yfir áhyggjum af máli Anítu sem hefur setið gæsluvarðhaldi síðan í byrjun september
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

„Ég bara vissi það að ég vildi þekkja þennan mann meira, sem og ég gerði. Það varð úr því hjónaband“

„Ég bara vissi það að ég vildi þekkja þennan mann meira, sem og ég gerði. Það varð úr því hjónaband“